Reiddist vegna myndatöku brotaþolans

mbl.is/Styrmir Kári

Maðurinn, sem játað hefur að hafa stungið annan mann fyrir utan stúdentagarða aðfaranótt sunnudags, sagðist fyrr um kvöldið ætla að drepa manninn. Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms en þar er Facebook-skilaboðum árásarmannsins lýst.

Segir þar að við skoðun á síma hans sé að finna Facebook skilaboð, þar sem sjá megi að vinur kærða sendi honum nokkur skilaboð milli klukkan 02:23 og 02:28 um nóttina. Spurði hann þá hvort hann þurfi að hafa áhyggjur af kærða eftir að kærði hafi hringt í hann og spurt hann út í hnúajárn, sem hann hafi ætlað að nota til að drepa brotaþola.

Við skýrslutökur sagði vinurinn að hann hafi hringt í hann um miðnætti og beðið hann að lána sér hnúajárn, og sagt að hann ætlaði að drepa brotaþola. Fyrr um kvöldið sagðist hann þó hafa verið með kærða og brotaþola heima hjá kærða og þá hafi verið gott á milli þeirra.

Rifust einir í íbúðinni

Maðurinn hefur greint frá því að þeir brotaþoli hafi verið staddir heima hjá honum að kvöldi laugardagsins ásamt fleira fólki. Brotaþoli hafi þá tekið mynd af rassi kærustu kærða og kvaðst kærði hafa reiðst vegna þess, að því er segir í úrskurði héraðsdóms.

„Eftir að kærði og brotaþoli hafi verið orðnir tveir einir í íbúðinni, um miðnætti, hafi þeir rifist vegna þessa en síðan hafi brotaþoli farið út. Skömmu síðar hafi brotaþoli komið aftur og sótt eitthvað sem kærði vissi ekki hvað hafi verið og aftur yfirgefið íbúðina.

Kærði kvaðst síðan hafa farið út á bílastæðið fyrir framan íbúð sína. Hann hafi óttast að brotaþoli myndi bíða þar eftir honum og því hafi hann tekið með sér eldhúshníf sem hann hafi sett í vasann á úlpunni sinni.“

Allt í góðu fyrr um kvöldið

„Er hann hafi verið fyrir utan hafi brotaþoli komið aftur til hans og beðið hann um að hleypa sér aftur inn til kærða svo brotaþoli gæti náð í rafsígarettur þangað sem hann hefði gleymt. Kærði hafi ekki viljað það og þeir hafi tekist á í framhaldi af því og hafi brotaþoli m.a slegið og skallað kærða.

Kærði hafi síðan í átökum tekið hnífinn og stungið brotaþola í bakið. Eftir það hafi átökin haldið eitthvað áfram en síðan hafi stúlka sem hafi verið stödd á svölum skammt frá kallað til brotaþola og kærði þá farið í burtu.“

Vitni sem voru heima hjá manninum um kvöldið hafa sagt að allt hafi verið í góðu milli kærða og brotaþola umrætt kvöld. Eitt vitnanna hafi sagt að þegar hann og kærasta hans hafi farið frá heimili kærða um miðnætti hafi kærði og brotaþoli verið þar einir eftir og hafi verið eitthvað að kýta, en ekki litið út fyrir að eitthvað alvarlegt væri að á milli þeirra.

Var orðinn fölur og meðvitundarlaus

Í greinargerð lögreglu kemur fram að aðfaranótt sunnudagsins hafi henni borist tilkynning um meðvitundarlausan aðila sem hafi blætt mikið úr, líklega eftir hnífsstungu.

„Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð aðila liggja í blóði sínu í anddyri [...] í Reykjavík og hafi þar verið tvær manneskjur að hlúa að honum. Hafi maðurinn, A, verið orðinn verulega fölur, meðvitundarlaus en hann hafi andað. Þá hafi sést við skoðun að hann var með stungusár aftan á baki fyrir neðan hægra herðablað.“

Brotaþoli elti kærða í kringum bifreið

Vitni greindu lögreglu frá því að þau hafi orðið vör við tvo menn, kærða og brotaþola, sem ættu í erjum úti á götu framan við húsið en þau hafi þá verið stödd í íbúð á 4. hæð og horft á atvikið út um glugga íbúðarinnar.

Vitnin hafi sagst hafa séð brotaþola elta kærða í kringum bifreið utan við húsnæðið og hafi þau heyrt kærða segja að brotaþoli hefði skallað hann. Því næst hafi þeir farið nær byggingunni og horfið úr sjónmáli í stutta stund en er vitnin hafi séð þá aftur hafi þau séð stóran blóðblett aftan á peysu brotaþola.

Annað vitnanna hafi þá kallað til brotaþola og kærði þá farið á brott. Vitnin hafi síðan farið niður að huga að brotaþola og hafi þau séð djúpan stunguáverka aftan á baki hans. Vitnin kváðust hafa spurt brotaþola að því hver hefði stungið hann og hann hafi sagt að það hafi verið kærði. Skömmu síðar hafi brotaþoli misst meðvitund og hnigið niður.

Hefur lýst iðrun fyrir dómi

Kærði var handtekinn skömmu síðar. Viðurkenndi hann fyrir lögreglu að hann hafi stungið brotaþola í kjölfar slagsmála þeirra á milli. Þá hafi mátt sjá að kærði hafi verið bólginn á vinstra kinnbeini. Hafi hann verið með skefti af hníf á sér en hnífsblaðið hafi vantað. Kærði hafi svo vísað á hnífsblað, sem reyndist vera 2 sentimetrar að breidd og 15 sentimetrar að lengd.

Fram kemur að maðurinn hafi lýst iðrun fyrir héraðsdómi og því hvernig atvik horfðu við honum, og meðal annars lýst þeim aðstæðum sínum að hann er að ljúka háskólanámi.

Þá hefur hann aldrei hlotið refsingu og er með hreina sakaskrá samkvæmt upplýsingum lögreglu. Segir enn fremur að hann hafi frá upphafi sýnt lögreglu samvinnu við rannsókn málsins.

Þegar lögregla kom á vettvang sá hún manninn liggja í …
Þegar lögregla kom á vettvang sá hún manninn liggja í blóði sínu í anddyri hússins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sjá mátti Facebook skilaboðin á síma mannsins.
Sjá mátti Facebook skilaboðin á síma mannsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert