Ríkið opinberi samninga og reikninga

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljóst er að mikil sóun er í innkaupum hins opinbera og fyrirkomulag um rammasamninga er stórgallað. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Kastljósi í kvöld, þar sem til umræðu voru opinber innkaup og gagnrýni á hvernig þeim er háttað.

„Við settum á stofn starfshóp og við sjáum strax að það er ekki bara í einstaka vörukaupum sem hægt er að gera betur, heldur þurfum við að byggja upp grunn upplýsinga til að geta skoðað innkaupin í heild sinni,“ sagði Bjarni.

Til að svo verði sagði Bjarni að ríkið þyrfti að fá hærra hlutfall rafrænna reikninga inn í kerfið, svo hægt sé að nota upplýsingatæknina í meiri mæli við innkaupin.

Einfalda verði innkaupaferla

„Það getur enginn fullyrt að það sé hvergi neitt óeðlilegt að eiga sér stað hjá hinu opinbera, en það sem við getum gert er að lágmarka hættuna á því að slíkt eigi sér stað,“ sagði Bjarni.

„Stærsta skrefið er að ríkið geri opinbera alla samninga og reikninga sem það greiðir. Einhverjar undanþágur þurfa auðvitað að vera til að uppfylla ýmis skilyrði en þetta á að vera meginreglan og fjársýslan er að undirbúa tillögur um þetta.“

Þá sagði Bjarni að einfalda verði sjálfa innkaupaferlana.

„Nýlega var ráðist í kaup á tölvum fyrir starfsmenn hins opinbera. Við skoðuðum viðskipti við þrjá birgja voru skoðaðir yfir tíu mánaða tímabil. Í ljós kom að keyptar voru af þeim 159 mismunandi tegundir af tölvum. Það sést glöggt að þá eru menn að lágmarka möguleika sína til að gera innkaup sem hagstæðust.“

Bjarni segir ríkið ekki geta boðið út öll sín innkaup …
Bjarni segir ríkið ekki geta boðið út öll sín innkaup á einu bretti mbl.is/Ernir

Allir af vilja gerðir

Spurður hvort draga verði einhverja til ábyrgðar að þessu leyti sagði Bjarni að skoða verði hvert tilvik fyrir sig, hvort menn verði áminntir eða málinu fylgt frekar eftir.

„En mín skoðun er sú að innan kerfisins eru þeir sem fara með þessi mál allir af vilja gerðir til að gera betur. En kerfið og fyrirkomulagið er hins vegar ekki að hjálpa þeim að vinna það verk,“ sagði Bjarni.

„Rammasamningafyrirkomulagið er til dæmis stórgallað. Við viljum því fara meira út í örútboð þar sem við lofum tilteknu magni. Ef við bjóðum tiltekið magn þá eigum við von á að fá alvöru afslætti.“

Að lokum sagði hann ríkið ekki geta boðið út öll sín innkaup á einu bretti, þar sem þá gæti skapast einokunarstaða vegna stórra samninga við fáa birgja.

„Ríkið hefur ríka hagsmuni af því að það þrífist fleiri en einn á markaðnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert