Tryggja þarf vernd víðerna í stjórnarskrá

Landvernd vilja að vernd víðerna Íslands sé tryggð í stjórnarskrá
Landvernd vilja að vernd víðerna Íslands sé tryggð í stjórnarskrá Rax / Ragnar Axelsson

Margt gott er að finna í náttúruverndarákvæðum stjórnarskrárnefndar um drög að nýrri stjórnarskrá að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar. Full ástæða sé þó til að setja inn ákvæði sem tryggi vernd óbyggðra víðerna á Íslandi.

„Þetta er atriði sem hefur fengið mun meiri athygli á undanförnum árum og er viðurkennt markmið í stefnu um sjálfbæra þróun sem umhverfisráðuneytið gefur út reglulega,“ segir Guðmundur Ingi, sem var í gær meðal þátttakenda í pallborðsumræðum  á málþingi Lagastofnunar Háskóla Íslands og Lögfræðingafélags Íslands um náttúruverndarákvæði draga að nýrri stjórnarskrá. 

Ánægjulegt væri að gert væri ráð fyrir fyrstu og annarri stoð Árósasamkomulagsins í náttúruverndarákvæðinu, en verra væri að þriðju stoðina sem fjallar um réttláta málsmeðferð vantaði. Þar sé tekið á því hvort aðgangur að upplýsingum sé veittur, sem og möguleikanum á að geta skotið málum til óháðs úrskurðaraðila. „Þetta var inni í tillögum stjórnlagaráðs og það er ekki útskýrt í greinargerð hvers vegna þetta er ekki með. Þetta teljum við gríðarlega mikilvægt fyrir réttindi og aðkomu almennings að umhverfismálum.“

Meginreglu umhverfisréttar séu heldur ekki gerð nægilega góð skil. „Það er vissulega talað um varúðar- og langtímasjónarmið og að þeim eigi að fylgja, en í tillögu stjórnlagaráðs var beinlínis talað um meginreglu umhverfisréttar og við teljum að betur fari á að það sé ótvírætt að meginreglur umhverfisréttar hafi stjórnarskrárvarin réttindi.“

Vilja hagsmuni landeigenda burt

Landvernd geri ennfremur athugasemd við að í þeim hluta sem fjallar um almannarétt sé það gert með fyrirvara um rétt landeigenda. „Við erum mjög fylgjandi því að almannaréttur komi þarna fram, en ef við skoðum náttúruverndarlögin þar sem talað er um almannaréttinn þá segir að honum fylgi skýr skylda til góðrar umgengni og tillitssemi í garð landeigenda. Það er mikill munur á að tala um tillitssemi annars vegar og hagsmuni landeigenda hins vegar eins og stjórnarskrárnefndin leggur til. Við teljum óþarft að hafa þetta með.“

Í lagadrögunum sé ennfremur ekki skýrt hvernig nálgast á hugtakið sjálfbærni. „Við teljum þó að þarna sé verið að vísa til veikrar sjálfbærni frekar en sterkrar.“ Veik sjálfbærni gangi í grundvallaratriðum út á að hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, náttúran, efnahagurinn og samfélagið, séu nokkurn veginn jafnvígar. Skilgreiningin á sterkri sjálfbærni feli hins vegar í sér að náttúran sé undirstaðan sem hinar stoðirnar byggjast á. „Það er að okkar mati grundvallaratriði, ekki síst þegar kemur að auðlindnýtingu.“ Skýrt verði að vera að náttúruverndarákvæði stjórnarskrárinnar vísi til sterkrar sjálfbærni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert