Bílageymslunni breytt í bráðamóttöku

Frá bílageymslu spítalans í dag, sem breytt hefur verið í …
Frá bílageymslu spítalans í dag, sem breytt hefur verið í bráðamóttöku. Af vef Landspítalans

„Aftur og ítrekað hef ég hér í þessum pistlum greint frá þeirri óþolandi stöðu sem er á aðalsjúkrahúsi landsmanna þar sem verulega veikt fólk fær ekki fullnægjandi þjónustu vegna þess að ekki eru nægilega mörg rými á spítalanum.“ Þetta segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítala í vikulegum föstudagspistli sínum.

Páll segir aðstreymi sjúklinga vera gríðarlegt á stundum og að spítalinn hafi endurtekið lent í þeirri „ótrúlegu stöðu að milli 20-30 sjúklingar sem tilbúnir eru til innlagnar á bráðadeildir spítalans hafa mátt bíða á bekkjum og jafnvel stólum á göngum slysa- og bráðamóttöku.

Samhliða því hafi gangainnlagnir og aðrar yfirlagnir á bráðalegudeildir verið umfram þolmörk og álag því gríðarlegt á starfsfólkið spítalans.

„Þrengsli, skortur á viðunandi hreinlætisaðstöðu og annarri tilhlýðilegri aðstöðu fyrir veikt fólk og þá sem það annast er æpandi. Þetta bitnar bæði á eldri og yngri sjúklingum, en þeir sem eru veikastir fyrir líða þó mest,“ segir Páll.

Landspítali í Fossvogi.
Landspítali í Fossvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Til marks um alvarleika ástandsins

Stjórnendur bráðamóttökunnar æfðu í dag móttöku sjúklinga í bílageymslu bráðamóttökunnar, því hugsanlegt er að hana þurfi að nota sem sjúkrarými um helgina að sögn Páls.

Bílageymslan sé nú þannig útbúin að hægt sé með litlum fyrirvara að taka þar við sjúklingum.

„Er þetta rými hugsað til notkunar í neyð; við eiturefnaslys eða hópslys. Það er hins vegar til marks um það hversu alvarlegt ástandið hefur verið undanfarið að nú er hugsanlegt að nota þurfi bílageymsluna, ekki til að bregðast við neyðarástandi heldur í venjulegri flensutíð,“ segir Páll.

Að lokum víkur hann að því sem hann segir úrtöluraddir um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut.

Hér er alvörumál á ferðinni sem snýst um öryggismál allra landsmanna. Eftir 15 ára yfirlegu hefur staðsetning spítalans verið ákveðin og þeir sem kjósa að hleypa þessu máli upp nú þegar framkvæmdir eru hafnar og málinu hefur verið siglt í höfn verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.

Hver einasti dagur sem uppbyggingin tefst, fyrir atbeina aðila með afar takmarkað vit á rekstri eða uppbyggingu háskólasjúkrahúss er alvörumál.“

Sjá fréttir mbl.is:

Sigmundur vill nýjan Landspítala á Vífilsstöðum

Breyta þarf ákvörðuninni

Skissa frá Garðabæ sýnir hugmynd að uppröðun húsa nýs hátæknisjúkrahúss …
Skissa frá Garðabæ sýnir hugmynd að uppröðun húsa nýs hátæknisjúkrahúss á 15 hektara landi í kringum Vífils- staðaspítala. Merkt er hvað hvert hús yrði margar hæðir. Reykjanesbraut og Vífilsstaðavegur sjást til vinstri. Teikning/Garðabær

Hönnun og skipulagsmál tefja um 5-10 ár

Þá segir hann að því sé ranglega haldið fram að mörg ár séu eftir í hönnunarvinnu. Fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans, sem sé mikilvægasta byggingin, verði lokið um mitt ár 2018.

„Bara skipulagsmál og hönnun munu tefja verkefnið um 5-10 ár og reyndar mun meira þegar beðið væri eftir að byggingin fullkláraðist. Við myndum því enda með þrjá spítala á þremur stöðum, á Vífilsstöðum, Fossvogi og Hringbraut lengi fram eftir þessari öld.

Það væri ekki hægt að taka nýja spítala í notkun í áföngum og biðin yrði óbærileg fyrir alla næstu 10-15 ár. Mikil verðmæti færu forgörðum og margar ríkisstjórnir mundu halda áfram að deila um þetta,“ segir Páll.

Ekki ráð nema í tíma sé tekið

„Það er rétt að ítreka það að þörf Landspítala fyrir nýjan spítala er gríðarleg og ekkert má stöðva þá uppbyggingu sem hafin er. Heilsu þjóðarinnar vegna verður Landspítali að rísa við Hringbraut eins og samþykkt hefur verið á öllum stigum máls og einróma af Alþingi.

Hins vegar er lag fyrir áhugamenn um þá uppbyggingu sem nauðsynleg verður að 30-40 árum liðnum að nýta hugmyndir sínar fyrir þann fasa. Reynslan ætti að kenna mönnum að ekki er ráð nema í tíma sé tekið.“

Pistil Páls í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert