Dýrbítur laus í Vík

mbl.is/Jónas Erlendsson

„Ég kom hingað í fjárhús um klukkan átta í morgun og þá tók þetta á móti mér,“ segir Guðmundur Emil Sæmundsson, íbúi í Vík, í samtali við mbl.is en hann kom að kind sinni dauðri og illa bitinni. Við hlið hennar lágu einnig tvö dauð ófædd lömb.

„Þetta er augljóslega eftir hund - ég get fullyrt það. Refur fer ekki svona í fé auk þess sem hann fer sjaldnast heim í fjárhús,“ segir Guðmundur Emil og heldur áfram: „Hundur fer alltaf aftan í þær og í kviðinn en tófan í snoppuna og hausinn.“

Aðspurður segir hann lausagöngu hunda vera bannaða í sveitarfélaginu svo atvik sem þetta ættu ekki að koma upp. „Það er þó alltaf eitthvað um lausa hunda hérna. Ég hélt samt að maður ætti aldrei eftir að upplifa svona uppi við fjárhús.“

Guðmundur Emil segist hafa kallað til lögreglu sem mætti á staðinn og tók skýrslu. „Vonandi finna þeir út úr þessu. Það er alltaf leitt að koma að svona og vona ég að þetta verði fólki til umhugsunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert