Lögregla hafi veitt rangar upplýsingar

Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu.
Stúdentagarðarnir við Sæmundargötu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsstofnun stúdenta segir að lögregla hafi veitt rangar upplýsingar vegna hnífsstungunnar við Sæmundargötu síðastliðna helgi.

Í tilkynningu sem send var til íbúa stúdentagarðanna var haft eftir lögreglu að mennirnir tveir væru ótengdir görðunum og hefðu aðeins átt leið hjá.

Nú liggur fyrir að árásarmaðurinn er íbúi á Sæmundargötu og var fórnarlambið gestkomandi hjá honum um kvöldið. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem finna má í dómi Hæstaréttar sem féll í gær vegna gæsluvarðhalds yfir árásarmanninum

Hér má sjá tilkynningu sem FS sendi frá sér á mánudaginn:

Ágætu íbúar. Sá hræðilegi atburður átti sér stað aðfaranótt sunnudags að til átaka kom milli tveggja manna á Sæmundargötu og hlaut annar maðurinn alvarlegt stungusár. Til allrar hamingju varð íbúi á Stúdentagörðum var við atburðinn og gat komið manninum til aðstoðar.

Skv. upplýsingum lögreglu áttu mennirnir leið um Sæmundargötu en eru ótengdir Stúdentagörðum. Við biðjum íbúa að hafa samband við okkur ef upp koma spurningar eða þið viljið koma einhverju á framfæri.

Samkvæmt upplýsingum frá Rebekku Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa FS, hafði starfsmaður samband við lögreglu á mánudaginn þar sem stofnunin vildi veita íbúum stúdentagarðanna upplýsingar um málið. Upplýsingarnar hafi því miður reynst rangar.

„Lögreglan er meðvituð um að við erum mjög ósátt við að hafa fengið rangar upplýsingar,“ segir Rebekka og bætir við að upplýsingarnar hafi verið sendar út með bestu vitund FS.

Frétt mbl.is: Tengist ekki stúdentagörðunum

mbl.is greindi frá tilkynningu FS á mánudaginn og ræddi jafnframt við Árna Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sagðist hann ekki hafa veitt FS þessar upplýsingar. Vildi hann ekki staðfesta að þær væru réttar en útilokaði ekki að FS hefði fengið upplýsingar frá öðrum innan lögreglunnar.

Í gær lá fyrir dómur Hæstaréttar sem sneri við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi gæsluvarðhald yfir árásarmanninum. Hafði honum verið sleppt úr haldi en mun nú sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 6. apríl á grundvelli almannahagsmuna. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur greinilega fram að mennirnir hafi síður en svo aðeins átt leið hjá Sæmundargötu þetta kvöld heldur var fórnarlambið gestkomandi í íbúð árásarmannsins á stúdentagörðunum þetta kvöld. Árásarmaðurinn réðst síðan á manninn fyrir utan blokkina um nóttina. 

Frétt mbl.is: Reiddist vegna myndatöku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert