Myndaði nakta menn í búningsklefa

Frá Laugardalslaug. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá Laugardalslaug. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Styrmir Kári

Myndskeið sem sýna þrjá nakta unga karlmenn í búningsklefa Laugardalslaugar voru birt á vinsælli klámsíðu í síðustu viku. Svo virðist sem myndskeiðin séu tekin án vitundar mannanna. Málið er ekki komið á borð kynferðisbrotadeildar lögreglu.

Frá þessu var greint í helgarblaði DV í morgun. Þar segir að vefsíðan sé ein af hundrað vinsælustu síðum internetsins og því ljóst að veruleg umferð er um síðuna. Þá segir að myndgæðin séu það góð að auðvelt sé að bera kennsl á mennina þrjá.

Fyrra myndbandið er rúm mínúta að lengd og virðist tekið í laumi af gesti í Laugardalslaug. Þar má sjá ungan mann standa fyrir framan skáp sinn nakinn um stund og síðan klæða sig. Myndatökumaðurinn beinir þá upptökutæki sínu að öðrum nöktum manni í sama rými og tekur upp athafnir hans. Báðir virðast fullkomnlega grunlausir um að verið sé að taka myndir af þeim.

Hvorki náðist samband við forstöðumann Laugardalslaugar né yfirmann sundlauga Reykjavíkurborgar við vinnslu fréttarinnar.

Uppfært 14.23

Samkvæmt upplýsingum frá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar verður ekki aðhafst í málinu. Ekki er vitað til þess að mennirnir hafi haft samband við Laugardalslaug eða Reykjavíkurborg vegna málsins. Notkun farsíma er óheimili í búningsklefum lauganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert