Fimmtán tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur

15 bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur í Gerðubergi í …
15 bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur í Gerðubergi í dag. Mbl.is/Golli

Fimmtán barnabækur sem komu út á árinu 2015 voru í dag tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2016, sem afhent verða í Höfða síðasta vetrardag 20. apríl. 

Tilnefnt var í þremur flokkum, fimm bækur í hverjum, og fór athöfnin fram í Gerðubergi þar sem börn og unglingar röppuðu fyrir gesti og léku á hljóðfæri.

Í fyrsta lagi voru tilnefndar bækur í flokknum besta frumsamda barnabókin á íslensku:

  • Eitthvað illt á leiðinni er – Hryllingssögur barna af frístundaheimilum Kamps. Ábyrgðarmaður Markús Már Efraim.
  • Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur.
  • Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason.
  • Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur.
  • Ugla & Fóa og maðurinn sem fór í hundana eftir Ólaf Hauk Símonarson. 

Í öðru lagi voru eftirtaldar bækur tilnefndar til verðlauna fyrir afbragðs þýðingu á erlendri barnabók:

  • Brúnar sem Gerður Kristný þýddi. Höfundur hennar er norski verðlaunahöfundurinn Håkon Vreås.
  • Hvít sem mjöll sem Erla E. Völudóttir þýddi en höfundur þeirrar bókar er finnska skáldkonan Salla Simukka.
  • Bækurnar Skuggahliðin og Villta hliðin sem Salka Guðmundsdóttir þýddi, en þær eru báðar úr þríleik bresku skáldkonunnar Sally Green.
  • Sögur úr norrænni goðafræði sem Bjarki Karlsson þýddi.
  • Violet og Finch sem þær Birgitta Elín Hassel og Marta Hlín Magnadóttir þýddu, höfundur hennar er bandaríska skáldkonan Jennifer Niven. 

Í þriðja lagi voru tilnefndar til Barnabókaverðlaunanna fimm bækur í flokknum best myndskreytta íslenska barnabókin:

  • Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? með myndskreytingum eftir Þórarinn Má Baldursson.  
  • Eitthvað illt á leiðinni er, myndritstjóri Inga María Brynjarsdóttir,
  • Skínandi, höfundur og myndskreytir Birta Þrastardóttir.  
  • Ugla & Fóa og maðurinn sem fór í hundana, myndskreytir Linda Ólafsdóttir.
  • Viltu vera vinur minn? Höfundur og myndskreytir Bergrún Íris Sævarsdóttir.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkur verða í vor veitt í fyrsta sinn eftir sameiningu Barnabókaverðlauna skóla- og frístundaráðs og Dimmalimm, íslensku myndskreytisverðlaunanna. Dómnefnd sem tilnefnir og sker úr um verðlaunahafa er skipuð Brynhildi Björnsdóttur, Davíð Stefánssyni, Gunnari Birni Melsted, Kristínu Arngrímsdóttur og Jónu Björgu Sætran.

Nú stendur yfir sýningin Þetta vilja börnin sjá í Gerðubergi  – úrval myndskreytinga úr íslenskum barnabókum sem komu út á liðnu ári þar sem m.a. má skoða myndir úr tilnefndum bókum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert