Holtavörðuheiði lokuð í kvöld

Mynd/Skjáskot af vef Vegagerðarinnar

Reikna má með þéttum éljum um allt vestanvert land í kvöld, en búist er við kólnandi veðri samhliða með hálku á vegum. Vegurinn um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku er nú lokaður.

Mjög hvasst hefur verið víða á Suðvesturlandi, meðal annars á Hellisheiði. Það eru hálkublettir og éljagangur á Sandskeiði og Þrengslum en hálka og éljagangur á Hellisheiði. Krapasnjór er á Lyngdalsheiði en þæfingur í Efri Grafningi. Vegir eru þó víðast auðir á Suðurlandi.

Á Vesturlandi eru vegir að miklu leyti auðir á láglendi en nokkur hálka er á fjallvegum og hálkublettir á norðanverðu Snæfellsnesi. Fróðárheiði er lokuð. Þá er vegurinn um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku lokaður og verður ekki opnaður í kvöld.

Mjög hvasst er víða á Vestfjörðum. Lokað er um Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán og eins á Klettshálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Hálkublettir eru á láglendi. 

Mjög hvasst er einnig á Norðurlandi, en Vegagerðin vill sérstaklega vara við hviðum á Siglufjarðarvegi. Hringvegurinn er auður á láglendi en nokkur hálka er á útvegum. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Ófært er á Hófaskarði og Hálsum.

Vegir á Austurlandi eru mikið til auðir þótt sums staðar séu hálkublettir.

Fylgjast má með veðri á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert