Húsnæðisúrræðum verði fjölgað í borginni

Dagur B. Eggertsson segir borgaryfirvöld horfa til þess að til …
Dagur B. Eggertsson segir borgaryfirvöld horfa til þess að til þurfi að vera félagslegar lausnir í húsnæðismálum. Mbl.is/Golli

Reykjavíkurborg og Alþýðusamband Íslands undirrita síðar í dag samkomulag um að fjölga húsnæðisúrræðum í borginni. Þetta kom fram í ræðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á flokkstjórnarþingi Samfylkingarinnar í Iðnó nú í morgun.

„Þegar við horfum á okkar húsnæðisáform í Reykjavík núna þá viljum við gera það að heilbrigðari húsnæðismarkað og tryggja meiri fjölbreytni. Við gerum ráð fyrir því að nærri 40% af allri uppbyggingu á árunum 2014 til 2020 sé á grundvelli húsnæðisáætlunar okkar,“ sagði Dagur. Fjöldi verkefna séu þegar komin í framkvæmd. „Eins og staðan er í dag þá erum við komin með leigufélög á einkamarkaði, sem er fagnaðarefni út af fyrir sig. Við erum líka að fjölga íbúðum félagsbústaða um 500 á næstu árum, búseturéttaríbúðum um tæpar 500, stúdentaíbúðum um tæpar 800 og íbúðum fyrir eldri borgara um rúmlega 300 auk hjúkrunaríbúða.“

Síðar í dag á 100 afmæli Alþýðusambands Íslands „og í raun þar með líka á 100 ára afmæli samstarfs Reykjavíkurborgar og verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálum þá munum við skrifa undir stórt samkomulag í Hörpu sem mun breyta þessum súluritum og inn koma verkefni sem miðast að vinnandi fólki,“ sagði Dagur í ræðu sinni.

Lægstu tekjuhóparnir fái þak yfir höfuðið

Samkomulag borgarinnar og ASÍ miðist að því að bæta inn stórum verkefnum sem feli í sér að lægstu tveir tekjuhóparnir fái öruggt þak yfir höfuðið. „Leiguíbúðir á viðráðanlegum kjörum sem byggðar verða í samstarfi borgarinnar, Alþýðusambandsins og félaga á þeirra vegum. Vonandi fylgja líka fleiri verkalýðsfélög – líka opinberra starfsmanna - í kjölfarið til þess að byggt verði á breiddinni og húsnæðisáætlunin gangi eftir.“

Þak yfir höfuðið væru mannréttindi, íbúðamarkaðurinn eigi að vera fjölbreyttur og úrræðin líka. „Þarna helst í hendur sýn verkalýðshreyfingar sem vinnur í þágu alls þorra vinnandi fólks, borgaryfirvalda sem horfa til þess að á húsnæðismarkaði þurfi að vera til félagslegar lausnir og vonandi breiðs meirihluta á alþingi, sem er gríðarlega brýnt að styðji í höfn þau frumvörp sem fyrir þinginu liggja og eru ákveðin forsenda þeirrar uppbyggingar sem við erum að hrinda af stað síðar í dag og munu skipta verulegu máli á næstu árum til að ná þeim árangri sem við viljum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert