Rokkþotan skemmdist í Síle

Miklar skemmdir urðu á hreyflunum við óhappið.
Miklar skemmdir urðu á hreyflunum við óhappið. Mynd/Iron Maiden

Þungarokkararnir í Iron Maiden reyna nú hvað þeir geta til að ná á tónleikastað í Argentínu í tæka tíð eftir að breiðþota þeirra skemmdist í óhappi á flugvellinum í Santiago í Síle í dag. Þotuna eru þeir með á leigu frá íslenska flugfélaginu Air Atlanta.

Óhappið varð þegar verið var að draga flugvélina á eldsneytisstæði þar sem átti að fylla hana fyrir brottför til borgarinnar Córdoba í Argentínu, að því er kemur fram á vefnum Allt um flug. Ekki vildi hins vegar betur til en svo að dráttarbeislið losnaði og þegar ökumaður dráttarbílsins áttaði sig á því reyndi hann að forða sér undan vélinni með því að beygja til hliðar. Við það varð farartækið undir hreyflum á vinstri væng flugvélarinnar og skemmdust þeir báðir.

Tveir flugvallarstarfsmenn slösuðust en meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg.

Á opinberri vefsíðu Iron Maiden kemur fram að hreyflarnir séu mikið skemmdir og svo gæti jafnvel farið að skipta þurfi um þá báða. Sveitin fullvissar hins vegar aðdáendur sínar um að fyrirhugaðir tónleikar í Argentínu á morgun og þriðjudag fari fram eftir áætlun.

Flugvélin er af gerðinni Boeing-747 og hefur söngvarinn Bruce Dickinson séð um að fljúga henni sjálfur á tónleikaferðalaginu sem hófst 24. febrúar og á að standa í 4-5 mánuði. Hún er merkt hljómsveitinni sögufrægu í bak og fyrir og hefur hlotið nafnið „Ed Force One“ í höfuðið á einkennispersónunni Eddie.

Fyrri frétt mbl.is: Dickinson flýgur „rokkþotu“ Atlanta

Óhappið varð þegar flugvallarökutæki varð undir hreyflunum eftir að dráttarbeisli …
Óhappið varð þegar flugvallarökutæki varð undir hreyflunum eftir að dráttarbeisli losnaði. Mynd/Iron Maiden
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert