Úrelt að kjósa á fjögurra ára fresti

Magnús Orri Schram (t.h.) við hlið Árna Páls Árnasonar, núverandi …
Magnús Orri Schram (t.h.) við hlið Árna Páls Árnasonar, núverandi formanns Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Fólk krefst þess að ákvarðanir í samfélaginu séu teknar með öðrum hætti en nú er gert, að sögn Magnúsar Orra Schram sem býður sem fram til formanns Samfylkingarinnar. Hann segir kosningar á fjögurra ára fresti úrelt fyrirbrigði og vill opna ákvarðanatökuferlið. Framboð sitt segir hann sprottið úr grasrót flokksins.

Magnús Orri lýsti yfir framboði sínu í dag fyrir flokkstjórnarfund Samfylkingarinnar. Hann sat á þingi fyrir flokkinn frá 2009 til 2013 og var meðal annars þingflokksformaður hans um tíma. Síðan þá hefur hann hins vegar að mestu haldið sig utan flokksstörf.

„Ég hef mætt á einstaka viðburði hjá flokknum en ég hef meðvitað tekið mér frí frá öllu starfi vegna þess að ég hef viljað fá aðeins fjarlægð á hið pólitíska starf. Ég hef þá trú að það hafi bara gert mig betur í stakk búinn að takast á við þetta verkefni,“ segir Magnús Orri sem hefur starfað fyrir Capacent við sölu- og markaðsmál.

Flokkurinn þarfnast sterkari forystu

Ris Samfylkingarinnar hefur verið lágt í skoðanakönnunum um langa hríð. Magnús Orri telur flokkinn þarfnast sterkari forystu og að tala öðruvísi við fólk. Hann standi sterkum fótum í jafnaðarstefnunni en draga þurfi áherslur hans skýrar fram.

„Mitt framboð sprettur upp hjá grasrótinni, hjá unga fólkinu, hjá hinum almenna flokksmanni. Það er hann sem hefur leitað til mín. Þaðan finn ég stuðninginn. Ég held að það sé jarðvegur fyrir það sem við erum að berjast fyrir. Við sjáum það til dæmis í viðhorfum fólks til heilbrigðiskerfisins, í þeim vandamálum sem blasa við ungu fólki sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið og í þeirri áherslu minni á að ríkasta fólkið eigi að borga hærri skatta og við eigum að lækka skatta á venjulegt launafólk,“ segir Magnús Orri.

Vill breyta lögum um ráðherraábyrgð og Landsdóm

Framboð Magnúsar Orra var ekki orðið margra klukkustunda gamalt þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, deildi hart á það á Facebook-síðu sinni. Gagnrýndi hún að Magnús Orri telji sig fallinn til flokksforystu eftir að hafa verið forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu.

Magnús Orri sat í þingmannanefnd sem tók ákvörðun um ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum vegna bankahrunsins. Sjálfur lagði hann fram tillögu um ákæru á hendur Ingibjörgu Sólrúnu, Geir H. Haarde og Árna Mathiesen en vildi sleppa flokksbróður sínum Björgvini G. Sigurðssyni við ákæru. Aðeins Geir var á endanum ákærður eftir atkvæðagreiðslur í þinginu.

„Þetta Landsdómsferli var öllum mjög erfitt. Ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það. Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa tekið þátt í þessu ferli að það þurfi að breyta lögum um ráðherraábyrgð og Landsdóm,“ segir Magnús Orri sem vill að öðru leyti ekki tjá sig efnislega um ummæli fyrrverandi formanns flokksins.

Fólk fái að segja hug sinn oftar en á fjögurra ára fresti

Útkoman í skoðanakönnunum telur hann skilaboð um að fólk vilji öðruvísi pólitík. Það vilji heiðarlegri pólitík, meiri auðmýkt og að fólk fái að taka meiri þátt í ákvarðanatökum. Ein hugmyndin sem Magnús Orri hefur fyrir Samfylkinguna er að 15% skráðra flokksmanna geti óskað eftir atkvæðagreiðslu um mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi til að þeir hafi meira að segja um ákvarðanir á þingi.

Magnús Orri segist vilja opna lýðræðislega ferlið í samfélaginu en núverandi kerfi sé orðið úrelt.

„Fólk krefst þess að ákvarðanir séu teknar öðruvísi. Það vill fá að taka oftar afstöðu til mála sem fyrir þjóðinni liggja. Að kjósa á fjögurra ára fresti til Alþingis er í raun og veru úrelt fyrirbrigði. Við eigum að opna ferlið miklu meira og leyfa fólki að taka oftar afstöðu til mála en bara í gegnum Alþingiskosningar á fjögurra ára fresti,“ segir hann.

Gekk kerfinu of mikið á hönd á þingi

Uppgangur Pírata í skoðanakönnun og slakt gengi fyrrverandi ríkisstjórnarflokkanna gefur vísbendingu um að kjósendur vilji nýtt fólk í áhrifastöður. Spurður að því hvort að hann telji það munu vinna gegn sér í augum kjósenda að hafa setið á þingi í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segir Magnús Orri það þurfa að koma í ljós. Sjálfur telji hann það hafa verið mjög gott fyrir sig að hafa setið á þingi því hann hafi fengið ákveðna reynslu. Sú þekking nýtist honum vonandi til að taka betri ákvarðanir.

„Ég var inni á þingi á sínum tíma og þá gekk maður svolítið kerfinu á hönd. Maður tók of mikinn þátt í starfinu eins og manni var sagt að gera það. Ég held að með því að fara út og hlaða batteríin og fá fjarlægð á þetta hús, hvernig hlutirnir eru unnir þarna inni, sé ég betur í stakk búinn að gera góða hluti í stjórnmálum,“ segir frambjóðandinn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Rósa Braga
Magnús Orri sat á þingi frá 2009 til 2013.
Magnús Orri sat á þingi frá 2009 til 2013. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert