Fjöldahjálparstöð opnuð á Patreksfirði

Mynd/Fosshotel

Búið að opna fjöldahjálparstöð á Fosshóteli Vestfjarða á Patreksfirði, en Veður­stofa Íslands hef­ur lýst yfir hættu­svæði í bænum vegna snjóflóða. „Það er rýmt svæði 10, 11 og 12,“ segir Helga Gísladóttir, formaður Rauða krossins á Patreksfirði.

Í kringum 20 hús eru á svæðinu sem hefur verið rýmt og hafa um 40 manns þurft að yfirgefa heimili sín. „Hingað eru komnir um 30 manns og sumir eru á leiðinni, en aðrir hafa farið til vina og ættingja.“ Að sögn Helgu er veðrið enn ekki orðið mjög slæmt á Patreksfirði. „Það er ennþá verra á Bíldudal í þessari átt, en það er spáð svo vondu í kvöld og nótt.“

Hún segir gesti í fjöldahjálparstöðinni taka rýmingunni af mikilli yfirvegun. „Það eru allir rólegir og yfirvegaðir hér. Við erum þrír sjálfboðaliðar Rauða krossins sem tökum á móti fólki. Lögreglan er hérna og björgunarsveitin er að ná í fólkið og keyra það á milli og við erum öll í góðu samstarfi.“

Sjá frétt mbl.is: Rýma hús á Patreksfirði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert