Talmeinafræðinám í óvissu

Blikur eru á lofti um kennslu í talmeinafræði hérlendis. Reyndar er meistaranám í faginu tryggt næstu tvö ár í Háskóla Íslands, en framhaldið óljóst vegna fjárskorts. Fagfólk segir afleitt leggist námið af enda eru allt of fáir talmeinafræðingar við störf á Íslandi miðað við þörfina, um 75 manns. Bið eftir því að komast að hjá talmeinafræðingi á stofu er eitt til eitt og hálft ár.

Lengi vel urðu Íslendingar að fara utan til að mennta sig í talmeinafræði en frá 2010 hefur verið boðið upp á nám við HÍ. Nemendur eru teknir inn annað hvert ár, fimmtán í senn, en umsóknir hafa verið á milli 30 og 40 í hvert skipti.

Áður en kennsla hófst fékkst fjárveiting frá tveimur ráðuneytum, heilbrigðis- og menntamála, alls 18 milljónir króna. „Síðan höfum við fengið greiðslu fyrir þreyttar einingar, sem svo eru kallaðar; fáum sem sagt greitt fyrir hvern þann sem lýkur námskeiði,“ segir Sigríður Magnúsdóttir, dósent í talmeinafræði við læknadeild HÍ og frumkvöðull í þessum efnum, í samtali við blaðamann.

Sigríður segir að því sé ekkert til fyrirstöðu að vera með mun fleiri nemendur í fyrirlestrum, flöskuhálsinn sé hins vegar starfsnám og meistaraverkefni nemenda. „Þetta er klínískt nám svo allir fara í starfsnám og starfandi talmeinafræðingar eru það fáir að erfitt hefur verið að koma nemum að. Við höfum reyndar útskrifað tvo hópa þannig að staðan er aðeins að breytast.“

Vandamálið er líka að aðeins tveir starfsmenn eru við námsbrautina, í 50% dósentsstöðu hvor, en auk þess styrkir Heyrnar- og talmeinastöð námsbrautina með því að leggja til kennslu, og sinna þessir þrír kennarar öllum meistaraverkefnum nemendanna fimmtán.

„Þetta hefur gengið með gríðarlegri sjálfboðavinnu okkar, virka daga og um helgar, allt árið! Vinnan er miklu meiri en gert er ráð fyrir en öðruvísi gengur þetta ekki upp og auðvitað viljum við ekki sjá námið lognast út af fyrst það komst af stað,“ segir Sigríður.

Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti læknadeildar HÍ, segir engin áform um að leggja námið af en engin launung sé á að það standi ekki undir sér vegna þess í hve lágum reikniflokki það sé; hve lágar greiðslur HÍ fær frá hinu opinbera með hverjum nemanda.

„Búið er að taka ákvörðun um að auglýsa námið aftur og nemendur verða teknir inn í haust, en læknadeildin hefur lýst því yfir að fjármögnun verði að vera tryggð þegar kemur að því að taka næsta hóp inn að tveimur árum liðnum,“ segir Magnús Karl.

Morgunblaðið veit að í ráðuneyti menntamála er til umfjöllunar bréf frá Háskólanum þar sem farið er fram á hærri fjárhæð vegna umrædds náms en ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða fæst.

Nám í talmeinafræði er þverfaglegt en heyrir undir læknadeild. „Þetta er áhugavert og mikilvægt nám. Samvinna er á milli ólíkra deilda, læknadeildar, sálfræðideildar, menntavísindasviðs og íslensku- og menningardeildar. Þegar námið hófst var ljóst að skortur væri á talmeinafræðingum og því er okkur mjög umhugað um að kennsla haldi áfram,“ sagði Magnús Karl Magnússon við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Talmeinafræðingar vinna með fólki á öllum aldri. „Við hjálpum fyrirburum, börnum með skarð í vör og góm, svo vinnum við með börnum á leikskólum og grunnskólum, með unglingum, fullorðnu fólki og öldruðum,“ segir Sigríður Magnúsdóttir. „Námið er mjög metnaðarfullt og frábærir einstaklingar hafa útskrifast hjá okkur en þrátt fyrir að fjölgað hafi í stéttinni sér ekki högg á vatni; enn eru mörg hundruð börn á biðlistum,“ segir Sigríður. Hún hætti störfum á Landspítalann um síðustu áramót og hættir formlega kennslu í haust fyrir aldurs sakir en segist þrátt fyrir það reikna með að kenna eitthvað áfram.

„Við leggjum mikla áherslu á lokaverkefni og nemarnir okkar hafa m.a. unnið að gerð íslenskra málþroskaprófa og framburðarprófa til notkunar við greiningu og meðferð barna,“ segir Sigríður.

„Þetta er gríðarlega skemmtileg vinna og mjög gefandi en það horfir ekki vel, því miður. Kennslan stendur ekki undir sér þrátt fyrir heimanmundinn. Nýliðun er lítil í stéttinni og stefnir í mikil vandræði. Margir talmeinafræðingar eru á milli sextugs og sjötugs og fara að hætta.“

Sigríður nefnir að dýrt sé að fara utan til náms og bendir á, af töluverðum þunga, að mjög mikilvægt sé að talmeinafræðingar læri í íslensku málumhverfi.

Nánar er fjallað um málið í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins

Sigríður Magnúsdóttir talmeinafræðingur.
Sigríður Magnúsdóttir talmeinafræðingur.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert