Assan unir sér vel utandyra

Assan kom í garðinn í lok janúarmánaðar.
Assan kom í garðinn í lok janúarmánaðar. Af Facebook-síðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

Assan sem kom í Húsdýragarðinn í lok janúar dvelur nú utandyra eftir aðhlynningu innandyra að undanförnu. Í fyrstu var talið að assan unga væri vængbrotin en í ljós kom að af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafði hún misst handflugfjaðrir af hægri væng sem gerði það að verkum að hún var illa fleyg og átti erfitt með að bjarga sér.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. 

Þar segir að assan líti nú vel út, hún hafi verið dugleg að éta og fjaðrir hennar eru farnar að taka á sig eðlilega mynd. Kristinn Haukur fuglasérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er vongóður á að það takist að sleppa össunni fyrr en síðar eða þegar hún hefur safnað þreki og kröftum til að takast á við lífið.

„Assan dvelst í svo kallaðri Styrmishöll sem margir gestir kannast við. Sú höll var reist undir storkinn Styrmi með stuðningi Umhverfisráðuneytis Íslands. Síðan hann dvaldi hér hefur all nokkrum fuglum verið komið til heilsu á ný í þessari aðstöðu mest ránfuglar á borð við fálka, smyrla, uglur og auðvitað haferni í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands,“ segir á Facebook-síðu garðsins. 

Haförninn er á Íslandi oftast aðeins nefndur örn og á þeim svæðum þar sem hann verpir er hann kvenkenndur af heimamönnum og nefndur assa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert