Ferðamannagjöld ekki forgangsmál

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Rósa Braga

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist ekki telja sértæka tekjuöflun fyrir ferðaþjónustuna vera stórt forgangsmál lengur hjá ráðuneytinu. Hún segist enn telja náttúrupassann vera góða hugmynd þó hann hafi ekki náð fram að ganga, en að eins og með aðrar tekjuleiðir í þessum efnum séu þær umdeildar með sína kosti og galla. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld þar sem rætt var við Ragnheiði um stöðu ferðaþjónustunnar og uppbyggingu í greininni.

Vinna ráðuneytisins ekki einskorðuð við gjaldtöku

Ragnheiður sagði vinnu ráðuneytisins ekki einskorðaða við gjaldtöku á ferðamannastöðu, heldur væri gríðarleg vinna í gangi með aðilum ferðaþjónustunnar og sveitarfélögum í gegnum stjórnstöð ferðamála. Þá hafi stjórnvöld aukið mikið styrkjafé í framkvæmdasjóði ferðamannastaða og á þessu kjörtímabili hafi um 2 milljörðum verið úthlutað í gegnum sjóðinn.

Vandamálið að sögn Ragnheiðar er aftur á móti að stór hluti fjármunanna hafa ekki gengið út þar sem það vantaði upp á allskonar vinnu óháð ráðuneytinu. Þannig hafi m.a. mörg verkefni verið sett í biðstöðu þar sem deiliskipulag hafi ekki verið klárt fyrir staðina sem sótt var um.

Virðisaukaskattstekjur jukust um 10 milljarða frá 2014-15

Sagði Ragnheiður að stefnumótunarvinnan tilkoma stjórnstöðvar ferðamála hefðu þann tilgang að framvegis gætu málefni farið mun hraðar í gegnum kerfið og niðurstöðurnar verið markvissari. Sagði hún það mun mikilvægara en að framkvæma gjaldtöku.

Reyndar bætti hún við farið hefði verið í ýmsar breytingar, t.d. á virðisaukaskattkerfinu, með það fyrir augum að tekjur af ferðaþjónustunni myndu aukast. Sagði Ragnheiður að á milli áranna 2014-15 hefði virðisaukaskattur af neyslu ferðamanna t.d. aukist um 10 milljarða.

Stutt í fréttir af millilandaflugi á landsbyggðarvelli

Spurði Helgi Seljan, þáttarstjórnandi, þá hvort náttúrupassinn hefði verið óþarfur. Svaraði Ragnheiður spurningu hans ekki beint og var Helgi greinilega ekki sáttur með það og spurði spurningarinnar nokkrum sinnum á ný og svarði Ragnheiður að lokum að hún ætlaði ekki að fara að halda því fram að ekki væri þörf á sértækri tekjuöflun.

Þá sagði Ragnheiður að frétta væri að vænta á næstu dögum í tengslum við verkefni ríkisstjórnarinnar um að greiða niður millilandaflug á flugvelli á landsbyggðinni. Sagði Helgi að staða þess verkefnis hefði meðal annars verið gagnrýnd af þingmanni Framsóknarflokksins og svaraði Ragnheiður því til að málið væri ekki stopp hjá ráðuneytinu og að hluti málsins kæmi fram á næstu dögum. Annað þyrfti að fara í gegnum eftirlitsstofnun EFTA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert