Myndaði Mary krónprinsessu

Mary krónprinsessa gengur í salinn í Vega skömmu áður en …
Mary krónprinsessa gengur í salinn í Vega skömmu áður en hún hélt ræðu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Berglind fylgdi henni eftir hvert fótmál um húsið en Vega er vinsælt samkomu- og tónlistarhús. Ljósmynd/Begga

Ljósmyndarinn Berglind Ósk Svavarsdóttir, sem vinnur fyrir samkomu- og tónlistarhúsið Vega í Kaupmannahöfn, myndaði Mary, krónprinsessu Dana, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna hinn áttunda mars.

„Hún var frábær. Hún hélt þarna ræðu og þetta var langstærsta verkefni sem ég hef tekið að mér,“ segir Berglind en hún gengur undir nafninu Begga á danskri grundu. Á sama degi ári áður var hún ráðin til að mynda þáverandi forsætisráðherra Dana, Helle Thorning-Schmidt, og heppnaðist það einnig vel og verður nafn Beggu æ stærra með hverju verkefninu.

„Ég ætlaði fyrst að stoppa stutt hér í Kaupmannahöfn en mér þykir orðið svo ótrúlega vænt um borgina að ég er ekkert að fara. Allavega ekki eins og staðan er núna. Ég er að ná að skapa mér nafn og fæ mikið af góðum verkefnum og sífellt meiri tækifæri. Á meðan það er þannig er engin ástæða til að fara heim,“ segir Berglind.

Hringdi oft í mömmu

Hún segir þó að lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum í Kaupmannahöfn og hún hafi oft hringt heim til Íslands í upphafi. „Það er ekkert grín að koma hingað alein og reyna að skapa sér nafn. Ég hringdi oft í mömmu og vildi bara fá að koma heim. Sem betur fer hefur hún alltaf sagt nei,“ segir hún og hlær.

Begga lærði í Ljósmyndaskóla Íslands, hjá Sissu, og útskrifaðist í febrúar fyrir tveimur árum. Hún flutti til Danmerkur í júlí, nánast um leið og hún útskrifaðist, og hefur ekki séð eftir því.

Fjölbreytt og skemmtilegt

„Þetta eru svo fjölbreytt verkefni sem ég hef verið í og svo skemmtileg. Núna er ég að mynda fyrir lyfjafyrirtæki, ég myndaði drag-sýningu fyrir stuttu og krónprinsessu í síðustu viku.“ Vega er stærsti tónleikastaður Kaupmannahafnar og hefur Begga verið fyrir aftan myndavélina og smellt af mynd af mörgum þekktum hljómsveitum.

„Ég myndaði Cage The Elephant sem var mjög skemmtilegt. Royal blood voru einnig frábærir. Hljómsveitin er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og er alveg mögnuð á sviði.“

Berglind Ósk Svavarsdóttir.
Berglind Ósk Svavarsdóttir.
Berglind myndar hljómsveitir sem stíga á svið í Vega.
Berglind myndar hljómsveitir sem stíga á svið í Vega. Ljósmynd/Begga
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert