Segir Norðurál í herferð gegn sér

Álver Norðuráls á Grundartanga.
Álver Norðuráls á Grundartanga. mbl.is/Árni Sæberg

Ketill Sigurjónsson, sem hefur haldið úti Orkublogginu á mbl.is, segist hafa heyrt frá bankastjóra og framkvæmdastjóra hjá fjármálastofnun að Norðurál hefði beitt þrýstingi og ætluðu í herferð gegn sér. Í færslu á Orkublogginu segist Ketill ætla að hætta umfjöllun þar og leggja bloggið til hvílu.

Færslan ber fyrirsögnina „Átökin um orkuauðlindir Íslands“ og fjallar Ketill þar meðal annars um deilur Landsvirkjunar og Norðuráls um raforkuverð. Sakar hann Norðurál um að beita ýmsum bellibrögðum í hagsmunabaráttu sinni og gegn sér persónulega. Ketill hefur verið gagnrýninn á lágt verð sem stóriðja á Íslandi greiðir fyrir raforku.

Þannig hafi framkvæmdastjóri hjá íslensku fjármálafyrirtæki sett sig í samband við hann árið 2014 og sagt sér að forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta undan samstarfi þess við hann.

„Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“,“ skrifar Ketill.

Dregur sig í hlé frá umfjöllun

Segist Ketill verða var við mikla undirgefni í orku- og fjármálageiranum á Íslandi gagnvart Norðuráli og öðrum stóriðjufyrirtækjum. Það skapi þeim völd. Um sig sjálfan segist Ketill ekki geta verið til lengdar í því hlutverki að „upplýsa um hið sanna um viðskiptaumhverfi og starfsaðferðir þessara fyrirtækja“ þar sem þau hafi yfirburðastöðu gagnvart honum sem einstaklingi.

„Þess vegna er nú svo komið að ég ætla að draga mig í hlé frá slíkri umfjöllun. Þar með yrðu skrif hér á Orkublogginu, eðli málsins samkvæmt, mun efnisrýrari og ekki eins upplýsandi og verið hefur. Þess vegna er eðlilegt að Orkubloggið verði lagt til hvílu,“ skrifar Ketill sem ætlar að snúa sér alfarið að ráðgjafarstörfum á sviði orkumála í nágrannalöndunum.

Færsla Ketils á Orkublogginu

Ketill Sigurjónsson.
Ketill Sigurjónsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert