Veðrið heldur að ganga niður

Mynd úr safni af björgunaraðgerðum
Mynd úr safni af björgunaraðgerðum

Veðrið er heldur að ganga niður fyrir norðan og annars staðar er orðið skaplegt veður. Ofsarok var fyrir norðan í nótt og fárviðri á einhverjum stöðum. Mestallt millilandaflug er á áætlun en farþegar þurftu að bíða í vélum við flugstöðina um tíma í nótt vegna veðurs. Staðan verður metin á Patreksfirði þegar fer að birta en að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, er farið að kólna í veðri þar en talsverð úrkoma fylgdi óveðrinu þar í gær. 

Frá Patreksfirði í gærkvöldi
Frá Patreksfirði í gærkvöldi Ljósmynd Helga Gísladóttir

Hættustigi var lýst yfir á Vestfjörðum vegna krapaflóðahættu á Patreksfirði í gær og var 21 hús rýmt og fjöldahjálparstöð opnuð. 

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í lögreglunni á Vestfjörðum er veðrið að mestu gengið yfir þrátt fyrir að enn sé mjög hvasst. Veðrið var verst í kringum miðnætti og mikið álag á björgunarsveitum, einkum í Bolungarvík, Ísafirði og Bíldudal en þeirra starfi lauk um hálfþrjúleytið í nótt. Það er fimm stiga hiti og rok fyrir vestan. 

Mikið vatn flæðir yfir veg númer 823 við Hrafnagil í Eyjafirði og telst hann ekki fær minni fólksbifreiðum. Ófært er til Súðavíkur vegna snjóflóða.

Enn er mjög hvasst á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi en vegir eru greiðfærir en þó eru hálkublettir á Holtavörðuheiði og á fjallvegum á Vestfjörðum.

Greiðfært er um Suður-, Suðaustur- og Austurland en víða eru þungatakmarkanir á vegum landsins.

Varhugaverðir vatnavextir

Varað er við asahláku en samhliða asahláku hefur vatnsborð nokkurra áa farið hækkandi víðsvegar um landið og jafnvel hafa þær flætt yfir bakka sína. Búist er við áframhaldandi hláku en þó aðallega á Snæfellsnesi, Hvítársvæðinu (bæði vestan og sunnan við Langjökul), á Norðurlandi vestra sem og á vatnasviði Norðurár í Borgarfirði, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Athugið að rennsli í ám og vatnsföllum getur enn aukist sem eykur hættu á að þær flæði yfir bakka sína og jafnvel varnargarða. Þá er viðbúið að aukið álag verði á afrennsliskerfi bæja. Einnig eru vegfarendur hvattir til að sýna sérstaka gát við ár, segir í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

 Alls bárust sautján tilkynningar um tjón til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar má nefna að í Stekkjarhvammi fuku þakrennur og þakplötur og hið sama var uppi á teningnum á Hnoðravöllum. Við Tjarnarbraut fuku þakplötur og á einhverjum stöðum fuku girðingar og lausamunir.

Haraldur segir að enn sé mjög hvasst fyrir norðan en orðið þokkalegt sunnanlands. Það fór að draga úr veðri fyrir norðan um miðja nótt en enn er víða stormur, það er 20-25 metrar á sekúndu á norðurhluta landsins. Þar var fárviðri á stöku stað en vindhraðinn var 30-35 metrar á sekúndu fyrri hluta nætur.

Á Snæfellsnesi, á veginum við Kolgrafabrú, flettist malbik af veginum á kafla en þar er farið að lægja. Vegagerðin biður fólk um að fara varlega á þessum slóðum en búið er að opna veginn.

Það er spáð suðvestan 18-25 m/s norðan til, en lægir smám saman, mun hægari vindur syðra. Dálítil rigning eða slydda á Suður- og Vesturlandi, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast austast. Sunnan 8-13 og súld eða dálítil rigning á morgun, en áfram léttskýjað á NA-landi. Hiti 3 til 8 stig.

Seinkanir hjá Wow Air en Icelandair á áætlun

Flugvélar Icelandair sem eru að koma frá Norður-Ameríku eru allar á áætlun og útlit fyrir að flug til meginlands Evrópu verði á áætlun nú í morgunsárið hjá Icelandair. 

Aftur á móti eru tafir á flugi Wow Air og vél félagsins sem átti að koma frá Baltimore klukkan 5.10 lendir ekki fyrr en 7.05. 

Vél Wow til Kaupmannahafnar sem á að fara í loftið klukkan 7 er á áætlun en flug Wow til Parísar, Amsterdam og London er allt um það bil klukkutíma á eftir áætlun. 

Hér er hægt að fylgjast með flugi til og frá landinu.

Björgunarsveitir voru víða kallaðar út í gærkvöld vegna veðurs; í Stykkishólmi, Bolungarvík, höfuðborgarsvæðinu, Garði, Patreksfirði, Ísafirði, Akranesi, Borgarnesi, Suðureyri og Reykholti.

Flest verkefnin hafa verið á Vestfjörðum og mest í Bolungarvík. Um var að ræða hefðbundin óveðursverkefni, þ.e. lausar þakplötur og þakkantar, skjólveggir að fjúka, bátar að losna frá höfn og rúður að brotna. 

Hátt í eitt hundrað björgunarmenn tóku þátt í aðgerðum í gærkvöldi. 

Icelandair er á áætlun en tafir eru flestu flugi Wow …
Icelandair er á áætlun en tafir eru flestu flugi Wow air. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert