Auðlindaákvæðin yfirborðskennd

mbl.is/Hjörtur

Landeigendur telja íþyngjandi ákvæði um almannarétt innan eignarlanda í frumvarpi að stjórnskipunarlögum grafa undan þeirri vernd sem eignarrétturinn hafi notið í stjórnarskrá Íslands allt frá upphafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi þar sem fjallað er um tillögur um breytingar á stjórnarskránni.

Bent er á að ekki hafi verið ætlunin að nema brott með beinum hætti þessi réttindi og að ennfremur kunni að vera um að ræða brot á mannréttindasáttmála Evrópu að mati samtakanna. „Með ákvæðinu sé réttur landeigenda til að vernda land sitt gegn skemmdum tekinn af þeim og alfarið færður til löggjafans. Þá eigi umdeildur almannaréttur sem frumvarpið kveður á um sér hvorki rætur né stoð í fornum lögbókum Grágásar og Jónsbókar, eins og ranglega segir í greinargerð.“

Þá telji samtökin að ákvæði um auðlindir í náttúru Íslands séu yfirborðskennd og villandi og beri þess merki að stofna eigi til einhvers konar réttinda íslenska ríkisins í nafni þjóðarinnar að þeim auðlindum sem nú eru í eigu einstaklinga og lögaðila. „Landssamtökin leggjast eindregið gegn fyrirhuguðum og ótímabærum breytingum á stjórnskipunarlögum og telja að engan veginn verði við það búið til framtíðar að Alþingi Íslendinga framselji vald, umfram heimildir í stjórnarskrá, líkt og tíðkað hefur verið undanfarna áratugi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert