„Hér drekkum við vatn úr krananum“

Brynhildur Pétursdóttir alþingismaður.
Brynhildur Pétursdóttir alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst mjög mikilvægt að við komum þeim upplýsingum skýrt og skilmerkilega til okkar gesta, sem eru orðnir fjölmargir, að hér drekkum við bara vatn úr krananum,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag þar sem hún gerði plastflöskunotkun að umfjöllunarefni sínu.

Benti hún á að á sama tíma og hreint og gott vatn væri aðgengilegt um allt land væri verið að selja vatn í slíkum flöskum. Ekki síst til ferðamanna. Jafnvel væru brögð að því að ferðamönnum væri selt vatn í flöskum á þeim forsendum að vatnið hér væri ekki nógu gott.

„Ég get jafnvel séð viðskiptatækifæri í þessu. Ef ég væri ekki hérna á þingi þá myndi ég hanna einhverja mjög flotta flösku sem myndi halda kulda og hita sem ferðamenn myndu kaupa við komuna til landsins og vera með á sér í ferðinni og myndu fylla á hér og þar,“sagði hún.

Þá sagðist hún ennfremur telja að á ráðstefnum og fundum ætti frekar að bjóða upp á könnur og glös í stað þess að vera með plastflöskur með vatni. Það væri ekki stórt skref en mjög einfalt sem hægt væri að byrja á strax í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert