Óskuðu sérsveitar vegna hvellbyssna

Aðgerðum er lokið samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Aðgerðum er lokið samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Lögreglan á Suðurnesjum var með viðbúnað í Garðinum fyrr í morgun. Greindi Vísir frá því að byssumaður væri talinn ganga laus á svæðinu en hann átti að hafa sést við golfskálann í Leiru við Hólmsvöll.

Skólastjóri Gerðaskóla, Jóhann Geirdal, sagði í samtali við mbl.is að hann hefði frétt af aðgerðunum og rætt við lögreglu, sem lokaði veginum inn í Garðinn. Sagði hann þá að engin hætta væri á ferðum í bænum sjálfum og að ekkert væri hæft í fréttum um að útgöngubanni hefði verið lýst yfir í grunnskólanum líkt og fram hafði komið á Vísi, sem greindi fyrst frá málinu.

mbl.is ræddi þá einnig við starfsmann á bæjarskrifstofunni í Garði og sá kannaðist heldur ekki við að útgöngubann ríkti í grunn- og leikskóla bæjarins.

Uppfært klukkan 11.19

Aðgerðum er lokið samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Tilkynningar er að vænta.

Uppfært klukkan 11.40

Í tilkynningu frá lögreglu segir að hún hafi verið að störfum í morgun á Garðvegi, skammt frá Garði, vegna mannlausrar bifreiðar sem var illa staðsett í vegarkanti að hennar sögn.

Lögreglumenn hafi þá orðið varir við skothvelli sem virtust koma frá fiskihjöllum þar skammt frá. Sérsveit ríkislögreglustjóra var stödd á æfingarsvæði lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og var óskað eftir aðkomu hennar að því er segir í tilkynningunni. Þá var Garðvegi lokað í um eina klukkustund.

Að lokum kom í ljós að um var að ræða hvellbyssur, sem settar höfðu verið upp við fiskihjallana, í því skyni að fæla burtu fugla.

Brugðið er á ýmis ráð til að hræða fugla frá …
Brugðið er á ýmis ráð til að hræða fugla frá skreiðinni. Í þessu tilfelli voru það hvellbyssur. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert