Bíða mats sérfræðinga á hótelbruna

Slökkvilið að störfum við Hótel Ljósaland.
Slökkvilið að störfum við Hótel Ljósaland. ljósmynd/Vilhjámur H. Guðlaugsson

Lögreglan á Vesturlandi rannsakar enn brunann í Hótel Ljósalandi í lok janúar. Beðið er eftir gögnum frá sérfræðingum sem lögðu mat á vissa þætti málsins, meðal annars frá Mannvirkjastofnun. Karlmaður sætti gæsluvarðhaldi um tíma grunaður um að hafa kveikt í hótelinu.

Tilkynnt var um að eldur væri laus í hótelinu í Saurbæ í Dalasýslu aðfaranótt 31. janúar. Skömmu áður hafði lögreglu verið tilkynnt um ölvaðan mann sem gengi berserksgang fyrir utan hótelið. Maðurinn var handtekinn og sætti gæsluvarðhaldi þar til í byrjun febrúar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi er beðið eftir mati sérfræðinga áður en hægt er að ljúka rannsókninni og ákveða hvort ákæra verði gefin út í málinu. Hún áætlar að einhverra vikna bið geti verið eftir niðurstöðum sérfræðinganna.

Talið er að um þriðjungur hótelsins sé ónýtur eftir brunann en engi slys urðu á fólki við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert