Borgaryfirvöld vanrækt frumskyldu

Víða í borginni er ástand vega orðið mjög slæmt og …
Víða í borginni er ástand vega orðið mjög slæmt og holur slíkar að keyra þarf varlega til að komast leiðar sinnar án þess að verða fyrir tjóni. mbl.is/Eggert

„Viðhald gatna er ein af frumskyldum sveitarfélaga og þar með Reykjavíkurborgar en þessa skyldu hefur meirihlutinn í borginni vanrækt í mörg ár,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hann lagði til á fundi borgarstjórnar í gær að framkvæmdum yrði hætt á Grensásvegi og fé sem sparaðist við það yrði varið í gatnaviðgerðir á höfuðborgarsvæðinu.

„Ástandið er slæmt á götum Reykjavíkurborgar en það hefur ekki komið til á einni nóttu. Í kjölfar bankahrunsins var minna lagt til gatnagerðar og viðhalds en áður. Sérfræðingar vöruðu okkur þá við að slíkan sparnað væri í mesta lagi hægt sækja í þrjú ár en þá þyrfti að bæta í fjármagnið aftur og verja hærri upphæð en áður til að ná upp ástandi kerfisins.“

Kjartan segir það hins vegar ekki hafa verið gert. „Þvert á ráðleggingar sérfræðinga var minni fjármunum varið í gatnakerfið árið 2011. Þó var eitthvað bætt í næstu fjögur árin en það dugði ekki einu sinni til að halda í horfinu.“

S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar og staðgengill borgarstjóra, veitti Kjartani Magnússyni andsvar og viðurkenndi að ástand gatna væri erfitt í Reykjavík. Slitið sagði hann tilkomið vegna óhagstæðs veðurfars og mikillar umferðaraukningar og þá hefði sparnaður vissulega leitt til þess að vegakerfið væri ekki í góðu ásigkomulagi.

Í umræðunni sakaði hann Kjartan einnig um ómálefnalegan málflutning og sagði m.a. enn eina útgjaldatillöguna koma frá Sjálfstæðisflokknum og Kjartani en gaf engar frekari skýringar á ásökun sinni.

Benti Kjartan á móti á að sparnaðartillögur Sjálfstæðisflokksins væru fleiri en útgjaldatillögur og vísaði m.a. í tillögu sína af sama fundi um flutning Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, Höfuðborgarstofu og skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs úr dýru leiguhúsnæði í Ráðhús Reykjavíkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert