Breytir ekki samþykktum þingsins

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að í sjálfu sér væri í góðu að ræða hugmyndir um aðra staðsetningu nýs Landspítala en við Hringbraut í Reykjavík. Hins vegar hlytu samþykktir Alþingis í þeim efnum að vera í gildi þar til annað hefði verið ákveðið. Samþykktum Alþingis yrði að breyta áður en farið yrði aðrar leiðir.

Tilefnið voru hugmyndir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að betra væri að staðsetja nýjan Landspítala í landi Vífilsstaða en við Hringbraut. Sagði hann ennfremur að þingsályktun Alþingis frá því vorið 2014 hafi ekki kveðið á um nýjan Landspítala við Hringbraut. Það hafi upphaflega verið tilgangur ályktunarinnar en því hafi verið breytt.

Ragnheiður vísaði líkt og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra til þess að samþykkt hafi verið lög árið 2010 um Landspítala við Hringbraut, og vísaði þar til laga um stofnun opinbera hlutafélagsins Nýr Landspítali ohf., og breytingar á þeim lögum 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert