Rannsókn á köfunarslysi á lokastigi

Silfra á Þingvöllum.
Silfra á Þingvöllum. mbl.is

Niðurstöður rannsóknar tæknideildar lögreglu á köfunarbúnaði kínverskrar konu sem lést í köfunarslysi í Silfru í lok janúar liggja fyrir. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir rannsókn slyssins á lokastigi en ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Konan, sem var 26 ára gömul og búsett í Bandaríkjunum, var við köfun á vegum ferðaþjónustufyrirtækis þegar slysið varð. Sökk hún niður á um þrjátíu metra dýpi áður en henni var loks komið upp úr gjánni meðvitundarlausri.

Þorgrímur Óli segir að rannsókninni ljúki á næstu dögum. Rannsakendur málsins séu komnir með niðurstöður rannsóknar á köfunarbúnaðinum í hendur en eigi eftir að fara yfir þær. Að því loknu verði málinu vísað til ákærusviðs lögreglunnar sem taki afstöðu til þess hvort meira verði gert með það. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn segist ekki tjáð sig efnislega um rannsóknina fyrr en henni sé lokið.

Slysið í janúar var þriðja köfunarslysið í Silfru frá árinu 2010. Þá lést erlendur ferðamaður í gjánni og í desember árið 2012 beið Íslendingur bana við köfun þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert