Slökkviliðsmenn gerðu kjarasamning

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur undirritað nýjan kjarasamning.
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur undirritað nýjan kjarasamning. mbl.is/Styrmir Kári

Samband íslenskra sveitarfélaga undirritaði nýjan kjarasamning við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hjá ríkissáttasemjara í nótt.

„Þetta er sambærilegur samningur og við höfum gert við önnur stéttarfélög okkar,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs og formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fyrri samningurinn rann út 30. apríl í fyrra. Að sögn Ingu Rúnar urðu tafir á vinnumarkaði þess valdandi að ekki tókst að semja fyrr við slökkviliðsmenn.

Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna.
Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir samninginn vera í anda Salek-samkomulagsins.

Hann segir að samningaviðræður hafi verið í gangi undanfarnar vikur og er hann ánægður með niðurstöðuna. „Það er brjálað að gera hjá þessu sambandi. Þau hafa ekki tíma til eins eða neins, þess vegna fór þetta til ríkissáttasemjara,“ segir Sverrir Björn og á þar við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Samningurinn verður núna kynntur fyrir félagsmönnum í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og þurfa þeir að greiða atkvæði fyrir 30. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert