Höftin fara en regluverkið verður áfram

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri Eggert Jóhannesson

Til að bregðast við óhóflegu innflæði fjármuna vegna svokallaðra vaxtamunarviðskipta verður þróað stjórntæki sem einnig mun virka sem síðasta víglína í baráttu gegn verðbólgu og þjóðhagslegu ójafnvægi. Þetta stjórntæki verður virkt þegar fjármagnshöftin verða afnumin og gæti meðal annars falið í sér sérstaka bindiskyldu eða skatt. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra, á aðalfundi bankans í dag.

Fjárstreymistækið verður hluti af regluverki í kringum fjármálastöðugleika hér á landi, en önnur tæki eru hagstjórn peninga- og ríkisfjármála, fjármálalegar varúðarreglur og því sem hefur verið kallað þjóðhagsvarðartæki sem miða að því að hamla óhóflegri skuldsetningu og draga úr sveiflumögnun.

Fjölmennt var á fundinum í dag.
Fjölmennt var á fundinum í dag. Eggert Jóhannesson

Már spurði í ræðu sinni af hverju öll þessi viðbragðstæki og viðbúnað þyrfti. Svaraði hann því sjálfur til að veigamikil ástæða væri þær hættur fyrir fjármálastöðugleika sem fylgja óhóflegum og sveiflukenndum fjármagnshreyfingum sem eru án tengingar við grunnstoðir þjóðarbúskaparins.

Þá sagði hann að önnur ástæða væri að í heimi sem væri æ meira fjármálalega samþættur væri erfiðara fyrir lítil lönd að víkja af peningastefnu sem rekin er í stærri ríkjum.

Már sagði svo að fjármálakerfið væri þessa stundina að mótast af fjármálakreppunni og viðbrögðum við henni. Það ætti til dæmis við um fjármagnshöftin. Þá væri bankamarkaðurinn hér á landi nokkuð einsleitur þar sem fjármagnshöft, innleiðing á alþjóðlegu regluverki og stífara íslenskt regluverk um gjaldeyrisáhættu mótaði þá. Sagði hann reglur ekki hverfa með höftunum. „Höftin fara en stór hluti regluverksins verður áfram,“ sagði Már.

Salurinn í Seðlabankanum var fullsetinn í dag.
Salurinn í Seðlabankanum var fullsetinn í dag. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert