Landsframleiðsla 4% meiri en fyrir hrun

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri Eggert Jóhannesson

Staðan í efnahagslífinu er að mörgu leyti mjög góð en nú hefur samfellt hagvaxtarskeið varað í 6 ár. Samkvæmt nýjustu tölum er landsframleiðsla núna orðin 4% meiri en hún var fyrir kreppuna. Þrátt fyrir mikinn gang í efnahagslífinu eru hagtölur núna, öfugt við fyrri slík tímabil, nokkuð góðar. Þetta kom fram í erindi Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra, áðan á ársfundi Seðlabankans.

Sagði Már að frá 2009 hafi viðskiptaafgangur verið að meðaltali 5% á ári og þá hafi verðbólgan verið undir markmiðum undanfarin ár, þrátt fyrir miklar launahækkanir. Sagði hann að viðskiptakjör hefðu mikið batnað vegna lækkunar á olíu og hrávöru, en það hafi unnið á móti innlendum verðbólguþrýstingi.

Már benti á að útflutningur væri í góðum vexti og mætti þakka það stækkandi ferðaþjónustu. Benti hann á að 40% af lækkun skulda undanfarin ár mætti rekja til viðskiptaafgangs.

„Staða efnahagsmála er svo sannarlega góð,“ sagði Már á fundinum. Bætti hann við að þrátt fyrir góða stöðu gæti skjótt skipast veður í lofti og að sagan sýndi að Íslendingum hætti á að gera mistök í uppsveiflu. „Við þurfum að passa okkur,“ sagði hann um næstu skref Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert