Aðeins Matvælastofnun má kæra

Hallgerður segir það mun algengara en fólk átti sig á …
Hallgerður segir það mun algengara en fólk átti sig á að dýr séu beitt hrottalegri meðferð hér á landi. Þessi kýr tengist fréttinni ekki. mbl.is/ Atli Vigfússon

Dýraverndarsamband Íslands ætlar að senda fyrirspurn og kvörtun til umboðsmanns Alþingis yfir því að aðeins Matvælastofnun megi kæra dýraníð til lögreglu.

„Það kristallast í þessu máli af hverju við viljum gera það,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands og á þar við dýraníðsmál sem kom upp fyrir norðan þegar bóndi drap kvígu með því að draga hana á eftir bílnum sínum.

Frétt mbl.is: Drap kvígu með að draga hana á eftir bíl

„Enginn getur kært dýraníð til lögreglu nema Matvælastofnun. Hún á bæði að rannsaka og úrskurða. Við erum mjög ósátt við þetta og ætlum að óska eftir því að umboðsmaður Alþingis fari yfir hvort þetta sé löglegt,“ segir Hallgerður.

Ákvæði um sviptingu styrkja tekin út

Sambandið vill einnig setja í lög að beingreiðslur verði felldar niður til þeirra bænda sem verði uppvísir að dýraníði.

Að sögn Hallgerðar voru í frumvarpi að lögum um dýravelferð úrræði Matvælastofnunar um dagssektir, stjórnvaldssektir og sviptingu styrkja til bænda ef þeir brutu af sér með alvarlegum hætti. Ákvæði um sviptingu styrkja voru tekin út úr frumvarpinu vegna þess að Bændasamtök Íslands og Landssamband kúabænda sögðu að búvörusamningar gerðu ekki ráð fyrir þeim.

Í framhaldinu beindi atvinnuveganefnd því til landbúnaðarráðherra að taka málið aftur upp við endurskoðun búvörulaga með það í huga að koma ákvæðinu aftur inn í búvörusamninga og þar með inn í lög um dýravelferð.

Það hafi aftur á móti ekki verið gert, sem kom Dýraverndarsambandi Íslands mjög á óvart.  

„Ekki hæfir til að halda skepnur“

„Mál eins og þetta fyrir norðan er hroðalegt. Svona menn eru ástæðan fyrir því að þetta verður að vera eitt af úrræðum Matvælastofnunar. Það má ekki leyfa svona mönnum að halda áfram og fá styrki frá almenningi til þess. Úrræðin snúast um að taka þessa menn úr umferð sem eru ekki hæfir til að halda skepnur,“ segir Hallgerður og bætir við að það sé mun algengara en fólk átti sig á að dýr séu beitt hrottalegri meðferð hér á landi.  

Hún vill jafnframt taka fram að margir bændur séu úrvalsskepnumenn sem myndu aldrei láta sér koma til hugar að fara svona með dýr.

mbl.is

Bloggað um fréttina