Aukning í veggjakroti á vorin

Veggjakrot blasir víða við á Laugaveginum.
Veggjakrot blasir víða við á Laugaveginum. Mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Töluverð aukning hefur orðið á veggjakroti undanfarið.  Þá berast nú oftar fréttir af því að verið sé að spreyja á veggi inni í íbúðarhverfum að sögn Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna, sem lagði fram fyrirspurn um hvað borgin ætli að gera í þessum efnum á síðasta borgarráðsfundi.

„Veggjakrot eykst því miður alltaf á vorin og við erum þegar farin að sjá merki þess í borginni.  Það er  síðan bara þannig með veggjakrot, hér eins og annars staðar, að ef það fer úr böndunum þá er mjög erfitt að ná utan um það. Þess vegna verður að stöðva það og láta þá sem stunda veggjakrot sjá að þetta er ekki liðið,“ segir Júlíus Vífill.

Júlíus Vífill segir fólk hafa haft samband við sig sem borgarfulltrúa vegna veggjakrotsins. „Sömuleiðis eru hagsmunaaðilar og atvinnurekendur að  vakna við það er þeir koma til vinnu á morgnana að það er búið að krota út veggina á fyrirtækinu þeirra.“  

Þarf að vera sívakandi

Í gegnum tíðina hafa verið gerð átök gegn veggjakroti og nefnir Júlíus Vífill m.a. átakið Miðborgin okkar sem farið var í fyrir nokkrum árum og bar góðan árangur. „Síðan virðist það vera svo að það þarf að vera sívakandi yfir veggjakroti til að koma í veg fyrir að þetta fari óheft áfram.“

Hann nefnir einnig að svo virðist sem fleiri fréttir berist núna af veggjakroti inni í íbúðahverfum.  Vandinn sé ekki bundinn við miðbæinn eingöngu eins og oft  hafi verið.

Embættismenn borgarinnar hafi líka greinilega orðið varir við veggjakrotsaukninguna.  „Ég finn eftir samtal mitt við embættismenn að það þarf að gera eitthvað í þessum málum og ég veit að einhverjir þeirra eru í vinnuhópum sem hafa sest yfir þetta nú þegar.“ Hann kveðst eiga von á að borgarráð fái  sendar upplýsingar  um málið. „Og ef ekki liggur fyrir tillaga um hvernig  eigi að taka þetta mál föstum tökum, þá mun ég leggja fram slíka tillögu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það eru allir sammála um að það þarf að gæta að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert