Hlemmur opnaður á ný á kvöldin

Hlemmur hefur verið lokaður á kvöldin frá því um áramót …
Hlemmur hefur verið lokaður á kvöldin frá því um áramót og farþegar haft lítið skjól í að leita. mbl.is/Eggert

Samþykkt var á borgarráðsfundi í gær að Hlemmur yrði á ný opin á kvöldin fyrir farþega, er borgarráð samþykkti breytingatillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þess efnis.

Í tillögunni segir: „Frá áramótum hefur húsnæði strætisvagnamiðstöðvanna við Hlemm og í Mjódd verið lokað kl. 18.00 á virkum dögum. Um helgar er Hlemmi lokað kl. 16.00 og Mjódd kl. 18.00. Um er að ræða skerta þjónustu við þá fjölmörgu farþega, sem þurfa nú að bíða utan dyra í kulda og trekki.“

Að sögn Sigurðar Björns Blöndals, forseta Borgarráðs, var samþykkt að hafa opið skjól á Hlemmi á framkvæmdatímanum eftir því sem hægt er og aðgang að salernisaðstöðu. „Þetta er þó fyrst og fremst hugsað sem skýli á meðan að vagnarnir ganga og þegar framkvæmdir verða komnar á það stig að ekki verður hægt að hafa opið, þá verður séð til þess að bætt verði við skýlum fyrir utan.“

Matarmarkaðurinn á Hlemmi muni síðan leysa skýlisvandann er hann opnar, því þá muni fólk geta leitað skjóls þar á meðan að það bíður. „Þessi framkvæmdatími er alltaf pínu snúinn, en ég á ekki von á að þetta verði stór vandræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert