Ákærður fyrir ríflega 700 milljón króna umboðssvik

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik. mbl.is/Sverrir

Héraðssak­sókn­ari hef­ur ákært Geir­mund Krist­ins­son, fyrr­ver­andi spari­sjóðsstjóra í Kefla­vík eð því að mis­nota aðstöðu sína hjá spari­sjóðnum með lán­veit­ing­um til einka­hluta­fé­laganna Duggs og Fossvogshyls og nemur fjárhæðin ríflega 700 milljónum króna.

Geirmundur er ákærður fyrir að hafa veitt einkahlutafélaginu Duggi ehf. 100 milljón króna lán í formi yfirdráttar á reikningi félagsins án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, eða að áhættu og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með neinum hætti.

Lánsfjárhæðinni var síðan ráðstafað inn á reikning Duggs hjá Icebank, sem samdægurs tók handveð í reikningi félagsins hjá bankanum og var gengið að allri innstæðu reikningsins til greiðslu á skuldbindingum félagsins Suðurnesjamanna ehf. við bankann.

Framseldi stofnfjárbréf til félags sem sonur hans eignaðist

Þá er Geirmundur einnig ákærður fyrir umboðsvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem stjórnarformaður einkahlutafélagsins Víkna ehf., sem var dótturfélag sparisjóðsins. Á hann að hafa valdið félaginu verulegri fjártjónshættu er hann framseldi stofnfjárbréf í Sparisjóði Keflavíkur fyrir hönd Víkna að verðmæti 683.367.783 króna til einkahlutafélagsins Fossvogshyls í lok árs 2007 án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir stofnfjárbréfin.

Við framsalið eignaðist Víkur kröfu á Fossvogshyl, sem færði á móti skuld í bókhaldi sínu. Enginn lánasamningur var þó gerður, né heldur var gengið frá neinni tryggingu fyrir því að krafan yrði greidd. Sama dag og stofnfjárbréfin voru skráð á Fossvogshyl var félagið framselt frá Deloitte til sonar Geirmundar.

Í árslok 2009 voru eftirstöðvar kröfunnar 633.268.783 kr. færðar í gegnum viðskiptareikning tengdra aðila frá Víkum yfir í sparisjóðinn sem krafa og þar með flokkuð á meðal útlána.

Báðar lánveitingarinnar hafa verið afskrifaðar að fullu úr bókahaldi bankans, en málið gegn Geirmundi verður þing­fest 1. apríl næst­kom­andi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert