Mál á hendur Gunnari fellt niður

Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson mbl.is/Þórður

Kæra á hendur Gunnari Þorsteinssyni, sem oftast er kenndur við Krossinn, vegna fjármálamisferlis hefur verið felld niður.

Stjórn Krossgatna óskaði eftir því í mars árið 2014 að embætti sérstaks saksóknara gerði opinbera rannsókn á fjármálum og bókhaldi Krossgatna sjálfseignarstofnunar bókhaldsárin 2008-2012 og viðskiptum við tengda aðila.

Í erindi stjórnar voru rakin nokkur dæmi um ýmsa lausafjármuni á borð við þvottavélar, kæliskápa, þurrkara, sjónvörp og fleiri heimilistæki sem hafi verið keypt og ekki skilað sér til sjálfseignarstofnunarinnar, að því er stjórnin best viti. Einnig var vísað til skilnaðar þáverandi framkvæmdastjóra og taldi stjórnin nauðsynlegt að skoða hvort mögulegt sé að sjálfseignarstofnunin hafi að einhverju leyti greitt hluta af kostnaði í tengslum við það.

Málið hefur verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara frá 9. júlí 2015 og tók héraðssaksóknari við málinu í byrjun þessa árs.

Að mati héraðssaksóknara telst það sem fram er komið í málinu ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis og hefur málið því verið fellt niður.

Frétt mbl.is: Vilja rannsókn á fjármálum Krossgatna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert