Miðlunartillaga í álversdeilu

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissáttasemjari lagði í dag fram miðlunartillögu í kjaradeilu verkalýðsfélaga í álverinu í Straumsvík og viðsemjenda þeirra. 

Samningsaðilar sem um ræðir eru annars vegar Verkalýðsfélagið Hlíf, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsamband Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, FIT Félag iðn-og tæknigreina, VR og MATVÍS. Hins vegar Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Rio Tinto Alcan (ISAL).

Ríkissáttasemjari telur ljóst að frekari sáttaumleitanir um þau atriði sem út af standa í þessari deilu muni ekki bera árangur. Sáttasemjari hefur því í samræmi við skyldur sínar og heimildir þar um, að höfðu samráði við samninganefndir aðila lagt fram miðlunartillögu til lausnar deilunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara. 

Tillagan verður lögð fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna og fyrirtækið til atkvæðagreiðslu, sem verður lokið kl. 16.00 þann 11. apríl 2016. Verði tillagan samþykkt lýsa aðilar deilunnar því yfir að öllum ágreiningi á milli þeirra í aðdraganda samnings verði lokið.

Verkalýðsfélagið Hlíf frestar yfirstandandi vinnustöðvun þar til atkvæðagreiðslu lýkur og fyrirtækið skuldbindur sig til að draga til baka málshöfðun til staðfestingar álagðra lögbanna, verði tillagan samþykkt.

Kjarasamningur aðila rann út þann 31. desember 2014 og hafa verið haldnir 39 sáttafundir síðan deilunni var vísað til ríkissáttasemjara, þann 15. apríl 2015. Allsherjarverkfall hefur verið boðað tvisvar sinnum á þessu tímabili en því verið aflýst af verkalýðsfélögunum áður en það kom til framkvæmda m.a. vegna umræðu um yfirvofandi lokun verksmiðjunnar ef til verkfalls kæmi.

Yfirvinnubann var einnig í gildi á svæðinu um tíma en því var einnig aflýst. Yfirstandandi er ótímabundin vinnustöðvun Verkalýðsfélagsins Hlífar á útflutningi á áli. Ljóst er að kjaradeilan hefur nú þegar valdið fyrirtækinu sem og starfsmönnum þess miklu tjóni og því brýnt að leitað sé allra leiða til lausnar henni. Því leggur ríkissáttasemjari tillöguna fram í samræmi við skyldur sínar til að miðla málum.

Samkomulag hefur náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði samningins að undanskildu því hversu langt heimildir til verktöku á svæðinu skuli ná, en miðlun sáttasemjara nær m.a. til þess ágreinings. Í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur verður tillagan efnislega ekki kynnt öðrum en starfsmönnum og fyrirtækinu, fyrr en hún hefur verið samþykkt.

Efni tillögunnar verður kynnt starfsmönnum ISAL á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert