Prófessor setur spurningamerki við A-prófið

Hvert er rétta svarið?
Hvert er rétta svarið? Mynd/Af Facebook síður Eiríks Rögnvaldssonar

„Hversu miklar líkur séu á að maður þyrfti einhvern tíma að velja milli þessara setninga - og hvað val manns segði um málfærni og skilning á hnitmiðuðu og markvissu málfari?“

Að þessu spyr Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Vangaveltur hans eiga við spurningu úr A-prófi, aðgangsprófi fyrir háskólastig, sem ætlað er að spá fyrir um námsárangur stúdenta við háskóla með því að meta getu þeirra í málnotkun, talnaleikni, rökhugsun og til skilnings á texta og fleiri þáttum sem reynir á í háskólanámi.

Prófið var fyrst haldið árið 2012 og er nú haldið tvisvar sinnum á ári. Fjórar deildir innan Háskóla Íslands nota A-próf til að taka inn nemendur haustið 2016: Lagadeild, Hjúkrunarfræðideild, Hagfræðideild og Læknadeild. Tvær þær síðastnefndu nota einnig frekari próf til inntöku nema. Fyrra A-próf þessa árs fór fram fyrr í dag.

Utanbókarlærdómur en ekki prófun í málfærni

„Ég fékk þessa mynd senda af spurningu sem mér finnst mjög vafasöm,“ segir Eiríkur. Hann leggur þó áherslu á að umrædd spurning er ekki úr prófinu sem fram fór í dag, heldur úr sambærilegu sýniprófi, sem aðgengilegt er á vef Háskóla Íslands.

Spurningin er svohljóðandi:

6. Hvað telst best í formlegu málsniði?
a. Konurnar og stúlkurnar höfðu dálæti hvorar á öðrum.
b. Konurnar og stúlkurnar höfðu dálæti á hvorri annarri.
c. Konurnar og stúlkurnar höfði dálæti á hvorum öðrum.
d. Konurnar og stúlkurnar höfðu dálæti hvorar á annarri.

Á vef Háskóla Íslands kemur fram að einstök prófatriði eru samin til að prófa skilning, beitingu, greiningu, samþættingu og gagnrýnið mat á upplýsingum.

„Ég gat ekki séð að þessi spurning hafi nokkurn skapaðan hlut að gera með málfærni, þetta er utanbókarlærdómur.“

Talsverð umræða skapaðist á Facebook síðu Eiríks í kjölfari myndbirtingar og þar velta menn meðal annars fyrir sér hvort einhverjir sem ekki hafa íslensku að móðurmáli eða hafa ekki gengið í íslenskan skóla gætu svarað spurningunni.

veltir fyrir sér hversu miklar líkur séu á að maður þyrfti einhvern tíma að velja milli þessara setninga - og hvað val manns segði um málfærni og skilning á hnitmiðuðu og markvissu málfari.

Posted by Eiríkur Rögnvaldsson on Saturday, March 19, 2016

Löng leit að rétta svarinu

Eiríkur setur einnig spurningarmerki við skýrleika spurningarinnar.

„Þetta er mjög óljóst. Ef ég fengi þessa spurningu þyrfti ég að hugsa mig lengi um og ég er ekki viss um að til sé rétt svar við spurningunni,“ segir íslenskuprófessorinn.

Auk þess er prentvilla í einum svarmöguleikanum. Þriðji möguleikinn er eftirfarandi:

„Konurnar og stúlkurnar höfði dálæti á hvorum öðrum.“

„„Höfði“ hlýtur að eiga að vera „höfðu“ og þetta bendir til þess að ekki hafi verið vandað nóg til verka við frágang prófsins,“ segir Eiríkur.

En er rétt svar meðal möguleikanna sem upp eru gefnir?

Eiríkur segir að fyrsti valmöguleikinn gæti talist réttur, en með naumindum þó. Möguleikinn hljómar svona:

„Konurnar og stúlkurnar höfðu dátæti hvorar á öðrum.“

„Nú er kennt að nota eigi hvor um tvo en hver um þrjá eða fleiri. Ef fyrsti valmöguleikinn er réttur byggist það á því að það séu bara tvær konur og tvær stúlkur, ef þær væru fleiri í öðrum hvorum hópnum gæti þetta ekki verið rétt,“ segir Eiríkur.

Eiríkur telur að lokum að setning að þessu tagi væri aldrei notuð í almennu máli.

„Spurningin er í fyrsta lagi mjög ruglandi og segir í öðru lagi lítið um almenna málnotkun. Ég held að svona setning væri aldrei notuð.“

Skiptir engu máli í hverju er prófað?

Eiríkur gerði athugasemdir við samræmd próf í grunnskólum í haust og segir hann að þær athugasemdir eigi einnig við A-prófið.

„Ég fékk þær upplýsingar frá Menntamálastofnun að prófið hefði gott forspárgildi, þeir sem fengju góða einkunn á prófinu gengi vel á fyrsta ári í háskóla. En það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, prófið byggist á utanbókarlærdómi og þeir sem eru góðir námsmenn eru góðir að læra utanbókar. Það getur vel verið að prófið hafi gott forspárgildi. En þá er spurningin hvort það sé það eina sem skiptir máli. Skiptir engu máli í hverju er verið að prófa?“

A-prófið var fyrst tekið í notkun árið 2012.
A-prófið var fyrst tekið í notkun árið 2012. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert