Skemmtibátar til marks um gott veður

Allavega 15 skemmtibátar voru á siglingu við landið í dag. …
Allavega 15 skemmtibátar voru á siglingu við landið í dag. Þykir það nokkuð gott miðað við árstíð. mbl.is/Þorkell

Það er til marks um að veður á landinu var með besta móti miðað við mars mánuð að talsverður fjöldi var af skemmtibátum á siglingu víða um land. Samkvæmt vaktstöð siglinga hjá Landhelgisgæslunni voru um 15 slíkir bátar á siglingu við landið í dag, en til samanburðar eru þeir um 50 talsins þegar best lætur yfir sumarmánuðina.

Þessa miklu umferð í dag má rekja til góðs veðurs, en á höfuðborgarsvæðinu var t.d. milt og þægilegt veður og sól á köflum.

Ekki eru allir bátar skráðir í ferilvöktun hjá vaktstöðinni og er fullt af minni bátum og slöngubátum sem bætist við þennan fjölda skemmtibáta sem voru á siglingu í dag. Allir bátar sem eru lengri en 6 metrar þurfa þó að vera með AIS tæki og á skipaskrá og eru því í sjálfvirkri vöktun. Þá kjósa margir að vera í ferilvöktun með því að kalla sig inn.

Samkvæmt upplýsingum frá vaktstöðinni telst þessi fjöldi skemmtibáta á sjó í dag vera mjög gott fyrir þennan árstíma, enda enn þá miður marsmánuður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert