Horfa á klám í símanum

Ástrós Erla Benediktsdóttir fjallaði um kynhegðun framhaldsskólanema í MA-ritgerð sinni …
Ástrós Erla Benediktsdóttir fjallaði um kynhegðun framhaldsskólanema í MA-ritgerð sinni í félagsráðgjöf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eitt af því sem kom mér á óvart var hversu stór hópur horfir á klám í gegnum netið í síma eða um 40% svarenda. Með tæknivæðingunni er netið orðið aðgengilegt næstum hvar sem er og með því aðgengi að klámi mun greiðara. Ég skoðaði heimildir sem sýndu að ungmenni hefðu séð klám allt niður í 5 ára aldur og fannst mér því áhugavert að fá niðurstöður í rannsókninni sem styðja það, en þátttakendur greindu frá að hafa séð klám í fyrsta skipti um 5 ára aldur,“ segir Ástrós Erla Benediktsdóttir um helstu niðurstöðu meistararitgerðar sinnar í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands sem nefnist Kynhegðun, kynheilbrigði og klámáhorf framhaldsskólanema.

Í ritgerðinni var lagður spurningalisti fyrir tæplega fjögur hundruð nemendur í fimm framhaldsskólum á landinu til að kanna kynhegðun, kynheilbrigði og klámáhorf framhaldsskólanema á landinu og var kynjahlutfall svarenda nokkuð jafnt. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 50 en stærsti hlutinn var 18 og 19 ára.

Í ritgerðinni kom fram að mikill meirihluti þátttakenda hafði séð klám. Áhorf kláms var nokkuð misjafnt eftir kyni en niðurstöður sýndu að karlar horfðu meira og oftar á klám en konur. Einnig sýndu niðurstöður að meðalaldur þátttakenda er þeir sáu klám í fyrsta skipti var 13 ár. Karlar voru yngri þegar þeir sáu klám í fyrsta skipti og voru þeir flestir um 12 og 13 ára en konur um 15 og 16 ára.

Þegar tilfinningar þátttakenda til kláms voru skoðaðar kom í ljós að fleiri höfðu jákvæðar tilfinningar fremur en neikvæðar í garð kláms og voru karlar þar í meirihluta. Hún bendir á að ekki hafa verið gerðar margar íslenskar rannsóknir um klámáhorf ungmenna og að frekar sé lögð áhersla á að skoða og ræða um kynhegðun og kynheilbrigði. Hún telur að það þyrfti að gera fleiri og stærri rannsóknir á þessu sviði sem næðu til ungmenna um allt landið.

86,1% hafði horft á klám

„Rannsókn mín gefur góðar upplýsingar um ákveðinn hóp ungmenna, þá 18 og 19 ára framhaldsskólanemendur á Suðvesturlandinu, en það er ekki hægt að alhæfa niðurstöðurnar yfir á heildina,“ segir Ástrós Erla.

Í spurningakönnuninni var meðal annars spurt hvort einstaklingar hefðu horft á klám. Af 366 einstaklingum sem svöruðu spurningunni voru 86,1% sem svöruðu játandi og 13,9% svöruðu neitandi. Hlutfall karla sem svöruðu játandi var 98,9% og hlutfall kvenna 72,9%.

Þessi niðurstaða er svipuð og rannsókn sem var gerð hér á landi um 2005 nema að því leyti að færri konur sögðust hafa séð klám í þessari rannsókn. Þátttakendur voru einnig spurðir út í kynhegðun sína.

Mikill meirihluti hafði stundað sjálfsfróun

Þar kom fram að mikill meirihluti, eða 93,2%, hafði stundað sjálfsfróun, 81,6% verið fróað af öðrum og 78% fróað öðrum. 80,2% svarenda höfðu stundað samfarir, 79% fengið munnmök og 77% veitt munnmök. Að sögn Ástrósar kom henni nokkuð á óvart að 30% svarenda höfðu stundað endaþarmsmök og um 12% stundað kynlíf með fleiri en einum aðila í einu. Þátttakendur voru einnig spurðir um viðhorf til skyndikynna, þar sögðust um 40% fara heim með manneskju í fyrsta skipti ef þeim liði vel í návist hennar og um 55% höfðu stundað kynlíf með manneskju sem þau voru ekki hrifin af. Einnig kom fram að 11% þátttakenda höfðu haldið framhjá og um 22% hafði verið haldið framhjá og voru þar konur í báðum tilfellum í meirihluta.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert