Ógildir ekki allar niðurstöður læknisins

Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður í barnahristingsmáli sem verður tekið …
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður í barnahristingsmáli sem verður tekið upp aftur í Hæstarétti á grundvelli matsgerðar dr. Squier. mbl.is/Árni Sæberg

Það að ensk eftirlitsnefnd með störfum lækna hafi svipt barnataugalækni lækningarleyfi vegna villandi framburðar í barnahristingsmálum ógildir ekki allar niðurstöður hans, að mati Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns. Matsgerð læknisins var grundvöllur endurupptöku slíks máls hér á landi. 

Dr. Waney Squier var tekin af lista yfir skráða lækna á Englandi samkvæmt úrskurði opinberrar eftirslitsnefndar. Hún hefur talað gegn því viðtekna sjónarmiði sérfræðinga að tiltekin einkenni eins og bólgur á heila og blæðingar séu merki um áverka sem hafa verið veittir börnum í svokölluðum barnahristingsmálum (e. shaken baby).

Eftirlitsnefndin komst að þeirri niðurstöðu að hún hafi ekki veitt hlutlægan og óvilhallan framburð í sex málum þar sem hún var kvödd til sem sérfræðingur og vörðuðu ungbörn sem höfðu látist. Hún hafi verið kredduföst, ósveigjanleg og ómótækileg fyrir öðrum sjónarmiðum. Hún hafi jafnframt vitnað rangt í rannsóknir og heimildir til að láta svo virðast sem þær styddu framburð hennar þrátt fyrir að raunin væri önnur. 

Tekur úrskurðinum með fyrirvara

Matsgerð sem Squier gerði í máli Sigurðar Guðmundssonar sem dæmdur var fyrir að hafa valdið dauða ungbarns á daggæslu í Kópavogi árið 2001 með því að hrista það var grundvöllur fyrir því að endurupptökunefnd samþykkti að mál hans skyldi tekið upp aftur.

Sveinn Andri, lögmaður Sigurðar, segist ekki átta sig á hvað úrskurður eftirlitsnefndarinnar ytra hafi fyrir matsmanninn.

„Hins vegar er alveg ljóst að þessi úrskurður nefndarinnar ómerkir ekki sjálfkrafa allt það sem frá henni hefur komið enda væri það afar sérstakt,“ segir Sveinn Andri sem bendir á að matsgerðir frá Squier hafi meðal annars legið til grundvallar sakfellinga í barnahristingsmálum.

Því telur hann matsgerðina sem Squier skilaði í máli Sigurðar standa óhaggaða nema yfirmatsmenn sem ríkissaksóknari hefur óskað eftir komist að annarri niðurstöðu og hnekki áliti hennar. Þeir voru dómskvaddir í febrúar en Sveinn Andri segist ekki vita hvenær málið verður tekið aftur upp í Hæstarétti.

Hann segir Squier hafa í raun verið gagnrýnda fyrir að hafa skipt um skoðun í barnahristingsmálum. Þar séu ríkjandi hugmyndir eins og trúarbrögð fyrir sumum og því segist hann setja algeran fyrirvara við úrskurð ensku eftirlitsnefndarinnar um störf Squier.

Borið vitni í 150-200 málum

Í úrskurði nefndarinnar sem heyrir undir lækningaráð Bretlands kemur fram að framferði Squier í dómsmálunum sex hafi verið í grundvallaratriðum ósamræmanlegt við áframhaldandi skráningu hennar sem heilbrigðisstarfsmanns. Því verði nafn hennar fjarlægt úr læknaskrá landsins.

Squier hefur ekki starfað sem læknir í fjörutíu ár en hefur skilað matsgerðum í 150-200 dómsmálum sem tengjast barnahristingsmálum frá miðjum 10. áratug síðustu aldar. Í mörgum þeirra kom hún fram sem eina sérfræðivitnið fyrir hönd sakborninga.

Fyrri frétt mbl.is: „Shaken baby“-sérfræðingur settur af

Frétt The Telegraph

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert