Stappaði ofan á höfði manns

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð til 8. apríl næstkomandi yfir manni vegna grófrar líkamsárásar þar sem hann sparkaði m.a. í höfuð annars manns. Átti árásin sér stað á skemmtistað í Vestmannaeyjum fyrr í mánuðinum.

Við gagnaöflun lögreglu í málinu voru m.a. notaðar myndbandsupptökur úr eftirlitsvélum skemmtistaðarins. Þar mátti sjá manninn m.a. stappa ofan á höfði brotaþolans. 

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að maðurinn eigi langan brotaferil að baki og að mati lögreglunnar í Vestmannaeyjum megi ætla að hann muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið. Þá leikur rökstuddur grunur á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi.

Maðurinn á samfellda brotahrinu að baki, og þá aðallega líkamsárásir og fíkniefnalagabrot frá því í maí 2014. Hann hefur hlotið fjóra dóma fyrir slík brot auk þjófnaða, gripdeild og nytjastuld en á eftir að dæma í ellefu málum sem hann varðar og eru þau talin upp í dómi héraðsdóms. Þar af eru fimm líkamsárásir.  

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum krafðist þess að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 14. apríl næstkomandi en samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 verður gæsluvarðhaldi ekki markaður lengri tími en 4 vikur í senn. Maðurinn var handtekinn 12. mars síðastliðinn og verður honum því gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. apríl.

Hér má sjá dóm Hæstaréttar í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert