Styttri vinnuvika léttir undir með foreldrum

Heildarvinnuálag íslenskra foreldra er mest hér á landi í samanburði …
Heildarvinnuálag íslenskra foreldra er mest hér á landi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir sé horft til greiddrar vinnu, heimilisstarfa og umönnunar heimilismeðlima s.s. barna. Mæður verja 86 stundum á viku en feður 77 tíma á viku til slíkra starfa, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Þóru Kristínar Þórsdóttur, doktorsnema í félagsfræði. mbl.is/Styrmir Kári

Brýnt er að grípa til aðgerða til að létta undir með foreldrum, sem margir hverjir eru að sligast undir álagi í vinnu og við barnauppeldi. Formannaráð BSRB bendir á að með því að stytta vinnuvikuna megi auðvelda fólki að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.

Þetta kemur fram á vef BSRB.

Fram kemur í ályktun Formannaráðs BSRB, að það sé brýnt samfélagslegt verkefni að auka samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og það sé afar miður að stjórnvöld hafi ekki sýnt því verkefni meiri áhuga. Þá bendir ráðið á, að það sé tæplega tilviljun að flestir þeirra Íslendinga sem flytji af landi brott fari til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Þar séu kjörin heilt yfir betri, hvort sem litið sé til launa, vinnutíma eða aðbúnaðar fjölskyldufólks.

Bent er á að það felist beinn þjóðhagslegur ávinningur af því að tryggja vellíðan starfsfólks með betra jafnvægi milli atvinnu og fjölskyldulífs. Með því að stytta vinnuvikuna á íslenskum vinnumarkaði er stigið stórt skref í átt að því markmiði. Með styttri vinnutíma má auðvelda umönnun barna, aldraðra eða langveikra aðstandenda og auka lífsgæði starfsfólks.

Formannaráð BSRB bendir á að reynslan af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar bæði hér á landi og í Svíþjóð sýni að það sé sannarlega fyrir hendi svigrúm til að bæta skipulag vinnutímans. Reynsla stjórnenda af slíkum tilraunaverkefnum er jákvæð og niðurstöður tilraunaverkefna benda til þess að stytting vinnuvikunnar auki jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs, sérstaklega fyrir þá sem vinna vaktavinnu eða eiga ung börn.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert