„Þá skellur þessi höggbylgja á lestinni“

Frá rýmingu lestarinnar eftir sprenginguna í morgun.
Frá rýmingu lestarinnar eftir sprenginguna í morgun. Ljósmynd/Leifur Arnkell Skarphéðinsson

Aðeins sekúndum munaði að lestarvagn Leifs Arnkels Skarphéðinssonar hefði verið við brautarpall Maelbeek-lestarstöðvarinnar þegar sprengja sprakk þar í morgun og tugir manna létu lífið.

Leifur er lögfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og átti bókaðan fund hjá framkvæmdastjórn ESB í morgun. Var hann í lest á leið til Schuman-jarðlestarstöðvarinnar, sem er sú næsta á eftir Maalbeek-stöðinni þar sem sprengjan sprakk í morgun.

„Við vorum rétt ókomin á Maelbeek þegar sprengingin varð og þá skellur þessi höggbylgja á lestinni. Við finnum strax megna brennisteinslykt og mikill reykur kemur inn í lestina. Það stoppaði náttúrulega allt. Lestarstjórinn hélt að vísu aðeins áfram áður en hann stöðvaði lestina. Hann hefur væntanlega verið í losti,“ segir Leifur í samtali við mbl.is.

Framendi lestarinnar átti þá aðeins tuttugu til þrjátíu sekúndur eftir fram að brautarpalli Maelbeek.

„Ég tók lestina frá Central-stöðinni og kannski var það bara heppni að það var einhver töf þar í tvær mínútur. Annars hefði maður líklega verið þarna akkúrat þegar sprengingin verður.“

Leifur segir að sprengjan hafi líklega sprungið niðri í stöðinni, nálægt teinunum. Höggbylgjan hafi verið svo öflug.

Leifur var á leið á lestarstöðina Schuman sem sést til …
Leifur var á leið á lestarstöðina Schuman sem sést til hægri á kortinu. Herinn leiddi hann og aðra farþega hins vegar aftur til baka frá Maelbeek og upp um lestarstöðina Arts-Loi.

Farþegarnir felmtri slegnir

„Lestarstjórinn kemur svo út úr stýriklefanum og setur í gang svona sjálfvirka rödd sem lætur vita að það hafi eitthvað atvik átt sér stað á teinunum. „Afsakið ónæðið en við erum að vinna í þessu.“ Svona staðlaða bilunartilkynningu.“

Tilkynningin dugði skammt þar sem skelfing greip um sig í lestarvagninum eftir sprenginguna.

„Fólk hélt kannski að það væri kviknað í. Það áttuðu sig að minnsta kosti allir á því að það hefði orðið sprenging fyrir framan lestina. Þetta gat eiginlega ekki verið neitt annað, höggið var það þungt.

Þegar reykurinn kemur inn í vagninn og lyktin sömuleiðis þá grípur um sig mikil skelfing og margir fara hreinlega að gráta.“

Ennþá var þó rafmagn á teinunum og því nutu lestarfarþegar ljóss á meðan á þessu stóð.

„Svo er ekki alls staðar símasamband í jarðlestarkerfinu en heppilega var samband á þessum stað svo maður gat sent tilkynningar heim um að það væri allt í lagi með mann. Auðvitað fór ég strax í símann og hringdi í kærustuna og lét foreldrana og vini vita.“

Farþegarnir voru leiddir af hermönnum um lestargöngin og að næstu …
Farþegarnir voru leiddir af hermönnum um lestargöngin og að næstu stöð á undan Maelbeek. Ljósmynd/Leifur Arnkell Skarphéðinsson

Hermenn koma til bjargar í göngunum

„Við erum læst þarna niðri í örugglega korter eða tuttugu mínútur. Þá koma hermenn og við erum leidd út úr lestinni að aftanverðu. Við göngum svo alla leið á teinunum að Arts-Loi stöðinni. Það var lykt og reykur í göngunum en góð lýsing svo við sáum alveg hvert við vorum að fara.

Þegar við komum loks á Arts-Loi þá eru þar lögreglumenn í hrönnum með byssur sem leiða okkur upp og út þar. Það er allt í reyk þar líka svo sprengingin hefur verið stór og öflug. Reykurinn var kominn þarna út um allt.“

Leifur segir að þetta hafi vissulega tekið á.

„Auðvitað kemur spennufallið ekki fyrr en maður er kominn upp úr göngunum. Herinn er þar með bíl og vélbyssur og búinn að girða svæðið af og þá fannst manni maður vera öruggur.“

Við komuna á Arts-Loi, þar sem fyrir utan stóðu hermenn …
Við komuna á Arts-Loi, þar sem fyrir utan stóðu hermenn með vélbyssur og bíla. Ljósmynd/Leifur Arnkell Skarphéðinsson

Vissi af sprengingum á flugvellinum

Leifur segir að góður vinur sinn hafi hringt í sig þegar hann var á leið niður í lestina. Hann hafi sagt honum frá sprengingunum sem þá höfðu nýlega átt sér stað á flugvelli borgarinnar.

„Þess vegna vissi maður strax, um leið og höggbylgjan skall á manni, hvað þetta væri.“

Spurður hvort honum hafi þá þótt skárra að hafa vitað af sprengingunum á flugvellinum segir hann að svo hafi örugglega verið.

„Annars hefði maður kannski haldið að það væri kviknað í þarna og það hefði verið örugglega miklu hættulegra, fyrst maður slapp við sjálfa sprenginguna.

Hvort þetta hefur verið lestin á undan minni sem sprakk eða lestin á leiðinni í hina áttina, það veit ég ekki. Ég er búinn að sjá myndir í belgískum miðlum af lestarvagni sem er í tætlum og sjálfsmorðssprengjumaðurinn hefur væntanlega verið rétt fyrir utan lestina á brautarpallinum þegar hann sprengir sig,“ segir Leifur.

„Nú er maður kominn upp á hótel og næsta verkefni er að reyna að koma sér heim.“

Leifur Arnkell Skarphéðinsson
Leifur Arnkell Skarphéðinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert