Höfum sent samúðarskeyti „of oft“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun senda stjórnvöldum Belgíu samúðarskeyti vegna árásanna sem gerðar voru í Brussel í morgun.

„Ég mun senda kollega mínum skeyti að sjálfsögðu,“ segir Gunnar Bragi í samtali við mbl.is. „Þetta snýst um að sýna stuðning og það er það sem við munum gera að sjálfsögðu. En því miður höfum við þurft að senda svona skeyti á undanförnum árum, of oft.“

Hann segir að fyrst og fremst vinni utanríkisráðuneytið þó að því að ganga úr skugga um að enginn Íslendingur hafi slasast í árásunum. „Það er verkefni dagsins. Sem betur fer virðist sem Íslendingar hafi sloppið. Það náttúrulega eru mjög margir þarna og það má í raun þakka fyrir að svo sé.“

Allt annað umhverfi

Þá segir Gunnar Bragi að það sé vitaskuld áfall að verða vitni að hryðjuverkum sem þessum. 

„Ég held að menn þurfi bara að gera sér grein fyrir því að það er allt annað umhverfi í öryggismálum í dag heldur en fyrir nokkrum mánuðum í rauninni. Fólk þarf að hafa það í huga, en að sjálfsögðu ekki hætta að lifa sínu daglega lífi eða ferðast um heiminn, heldur fylgjast vel með og fylgja fyrirmælum stjórnvalda á hverjum stað fyrir sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina