Kostnaðarþátttökukerfið „alveg kolrangt“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mbl.is/Styrmir Kári

Á næstu dögum mun heilbrigðisráðherra leggja fram frumvarp sem boðar gríðarlegar breytingar á kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Þetta kom fram á borgarafundi RÚV um heilbrigðismál. Sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, að með frumvarpinu sé verið að boða hámörk á greiðslur sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og að það gangi út á að forða sjúklingum sem er með minnst á milli handanna frá því að verða fyrir þyngstu útgjöldunum.

Kostnaðarþátttakan komst í mál á borgarafundi RÚV um heilbrigðismál sem fram fór í kvöld. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði kerfið vera komið í ógöngur með kostnaðarþátttöku og nefndi sem dæmi gífurlegan kostnað krabbameinssjúklinga og sögu konu sem handleggsbrotnaði og þurfti að greiða 250.000 krónur fyrir aðgerðir.

Sagði hann hugmyndina um kostnaðarvitund bæði ranga og skakka. Kristján var sammála því og sagði kerfið „alveg kolrangt“ og þar að auki gríðarlega flókið og ógagnsætt.

Kerfið ræður ekki við fjölgun eldri borgara

Á borgarafundinum sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna fyrir svörum, þau Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar, Ásta Guðrún Helgadóttir þingkona Pírata, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og ráðherrarnir Kristján Þór Júlíusson frá Sjálfstæðisflokki og Sigurður Ingi Jóhannsson úr Framsókn.

Fyrri frétt mbl.is: Uppfyllir ekki væntingar fólks

Rætt var um aðkomu kerfisins að eldri borgurum. Erna Þórarinsdóttir, formaður félags eldri borgara tók til máls og sagði fregnir af fyrrnefndu frumvarpi heilbrigðisráðherra gleðilegt og að það ætti að breyta því að margt eldra fólk með lægri tekjur lendi í svakalegum lækniskostnaði.

Benti hún þó á að eldri borgurum hafi fjölgað gífurlega í landinu og kerfið væri ekki að ráða almennilega við það. Eldra fólk er fast inn á sjúkrahúsum og kemst ekki þaðan. Þurfi að reisa ný hjúkrunarheimili en 300 manns eru nú á biðlista eftir hjúkrunarrýmum. Spurði hún hver væru plön þingmanna þegar það kemur að málaflokki eldri borgara.

Eldri borgurum fjölgar stöðugt.
Eldri borgurum fjölgar stöðugt. mbl.is/Ómar

Uppbygging hjúkrunarheimila eitt brýnasta verkefnið

Sagði Sigurður að menn hefðu verið að kortleggja skýrt hvað þurfi til að bæta stöðuna með nýjum hjúkrunarheimilum. Viðurkenndi hann að Íslendingar hefðu ekki staðið sig í nokkra áratugi með að byggja hjúkrunarfræðingi en eitt brýnasta verkefnið í dag vari að komast eðlilega til móts „við okkar eldra fólk og koma sómasamlega fram við það. Nefndi hann mikilvægi þess að létta á álaginu á Landspítalanum og öðrum stofnunum þar sem eldra fólk þarf að vera sem kemst ekki inn á hjúkrunarheimili.

Katrín benti á að það dugi ekki aðeins að horfa til hjúkrunarheimila heldur þurfi að halda fólki lengur heima, virkja heimahjúkrun og félagsþjónustu. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, tók til máls og sagði að þörfin á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu væri á bilinu 400 til 500 rými til ársins 2025.

Sagði hann útspil ráðuneytisins um 300 ný rými í borginni ánægjulegt útspil en ekki nóg. Lagði hann áherslu á mikilvægi heildstæðrar keðju þar sem að með samþættri heimahjúkrun væri hægt að sinna fleirum og betur.  

Skiptar skoðanir um einkarekstur

Voru þingmennirnir og ráðherrarnir spurðir út í viðhorf til einkareksturs í heilbrigðiskerfisins og til þess að stjórnendur greiði sér þá arð. Benti Árni Páll á að lagt hafi verið fram frumvarp sem kemur í veg fyrir það að fyrirtæki í heilbrigðiskerfinu geti greitt sér út arf úr kerfinu.

Ásta sagði mikilvægt að passa að einkarekstur myndi ekki þróast yfir í einokunarrekstur sem yrði alvarlegt vandamál. Þá væri kannski bara einn læknir sem gæti gert ákveðna aðgerð. Að mati Ástu þarf að passa upp á að einokunarrekstur eigi sér ekki stað.

„Það er ekkert að samkeppni við opinberan rekstur svo lengi sem kerfið getur verið í samkeppni,“ sagði Ásta. Sagði hún að kerfið ætti að vera að hluta til einkarekið og að hluta til rekið af opinbera geiranum. Lagði hún þó áherslu á að landsmenn verði þá að fá það þjónustu sem þeir þurfi án þess að falla í skuldagryfjur.

Sigurður sagði að Framsóknarmenn hafi lengi barist fyrir því að menn hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahagi og bústöðu. Sagði hann ekkert því til fyrirstöðu að hafa blandað kerfi eins og á Norðurlöndunum.

Óttar sagði það lykilatriði í þessu að ríkið og opinberir aðilar myndu bera ábyrgð á þjónustunni. Sagðist hann vera jákvæður fyrir fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu en sagði að það myndi vera óheilla þróun ef fólk færi að kaupa sig fram fyrir biðlista.

Katrín lagði áherslu á að grunnþjónusta væri ekki til þess að græða á. Benti hún á að meirihluti Íslendinga vilji félagslega rekið kerfi og með einkareknu kerfi gæti aðgengi orðið ójafnara og hætta á ofmeðferð. Sagði hún alla hafa hag á því að hafa meiri fjármuni frá ríkinu og að fara þurfi mjög varlega í þessum skrefum. Benti hún á að heilmikill einkarekstur væri í dag í kerfinu en að hún sæi ekki forsendu fyrir því að efla kerfið með einkarekstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert