„Ótrúleg sigurtilfinning“

Reykjavíkurflugvöllur með neyðarbrautina framundan.
Reykjavíkurflugvöllur með neyðarbrautina framundan. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ótrúleg sigurtilfinning og mikill léttir. Þetta er búin að vera ofboðsleg þrautarganga,“ segir Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf., spurður út í  dóm Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í dag.

Þar var innanríkisráðuneytið dæmt til að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn til samræmis við lokun flugbrautirnar innan 16 vikna.

Lokun brautarinnar er forsenda framkvæmda Valsmanna á svæðinu.

Frétt mbl.is: Ríkið þarf að loka NA/SV flugbrautinni

Eins og bestu íþróttasigrar

„Málið er í raun mjög einfalt. Öll þau rök sem ríkið hefur borið fyrir sig eru algjör rökleysa. Að heyra hreint ótrúlega afdráttarlausan dóminn í vakti sömu sigurtilfinningu og bestu íþróttasigrar,“ segir Brynjar.

„Nú hef ég lesið dóminn frá orði til orðs og þó margir bendi réttilega á að í raun sé þetta bara hálfleiksstaða þar sem málið eigi eftir að fara fyrir Hæstarétt, þá er þetta ekki bara venjuleg hálfleiksstaða þar sem jafnt er í leiknum. Snúi Hæstiréttur þessum afdráttarlausa dómi verður áhugavert að yfirfara hvaða málsástæður geta þar legið að baki,“ segir hann.

Rík ástæða til bjartsýni

„Dómarinn gefur ekkert fyrir nein af helstu varnarrökum stefnda. Það gefur mér ríka ástæðu til bjartsýni. Ég hef ekki getað áttað mig á eða skilið hvað loftferðalög, skipulagsreglur flugvallarins, allsherjarréttur, samgönguáætlun hafa með þetta mál að gera, hvað þá heldur þá skýringu ríkislögmanns að samningurinn sé ekki samningur heldur „pólitísk yfirlýsing".“

Hann bætir við að þótt hann sé hlutdrægur í málinu telji hann mjög erfitt fyrir Hæstarétt að finna haldbær rök til að snúa þessum dómi við.  „Hann inniheldur engin „ef" eða atriði sem einfalt er að túlka á annan hátt en hér er gert,“ segir Brynjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert