Ríkið þarf að loka NA/SV flugbrautinni

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Rax

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt innanríkisráðuneytið, fyrir hönd íslenska ríkisins, til að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn til samræmis við lokun flugbrautarinnar innan 16 vikna. Ef ekki kemur til lokunnar þarf ríkið að greiða dagsektir til borgarinnar að upphæð einni milljón króna hvern dag.

Í dómnum er vísað í yfirlýsingu milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra og Jóns Gnarr, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, um lokun brautarinnar. Segir í dómnum að þó ráðherra sé óheimilt að láta af hendi landsvæði í eigu ríkisins, eins og það sem Reykjavíkurflugvöllur er á og að Alþingi hafi almennar heimildir til að gefa ráðherra fyrirmæli um málefni flugvallarins, þá hafi ráðherra verið til þess bær að taka ákvörðun um breytingu vallarins samanber yfirlýsinguna.

„Hvað sem líður þessum heimildum Alþingis telur dómurinn að ekki fari á milli mála að innanríkisráðherra var til þess bær að taka ákvarðanir um breytingar á Reykjavíkurflugvelli í október 2013, svo sem með fækkun flugbrauta eða jafnvel lokun flugvallarins ef því var að skipta. Leiddi hvorki af lögum né stjórnlögum að ráðherrann þyrfti að leita samþykkis Alþingis eða annarra aðila innan stjórnkerfisins fyrir slíkum ákvörðunum. Þá hefur stefndi ekki fært að því viðhlítandi rök að við slíkar ákvarðanir hafi stefnda borið að leita samþykkis aðila sem kunna að eiga eignarréttindi í landi Reykjavíkurflugvallar,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þá kemur fram í dómnum að í yfirlýsingu innanríkisráðherra og borgarstjóra frá 2013 komi fram skýr skuldbinding til að loka brautinni og að ákveðinn efndatími væri í henni sem sé liðinn með efnd borgarinnar.

„Áður hefur ítarlega verið rakið efni þess skjals sem téður innanríkisráðherra og borgarstjóri undirrituðu 25. október 2013. Við túlkun skjalsins verður í fyrsta lagi að líta til þess að orðalag annars liðar þess felur í sér skýra og fyrirvaralausa skuldbindingu innanríkisráðherra um að loka umræddri NA/SV-flugbraut og endurskoða skipulagsreglur flugvallarins til samræmis við það. Svo sem áður greinir var hvort tveggja á valdi ráðherrans. Þá verður textinn skilinn á þá leið að tilkynning um lokun flugbrautarinnar skuli fara fram samhliða auglýsingu deiliskipulags fyrir það svæði sem hér um ræðir og verður jafnframt ráðið að aðilar hafi gert ráð fyrir því að sú auglýsing færi fram á árinu 2013. Er því ljóst að aðilar sömdu einnig um ákveðinn efndatíma,“ segir í dómnum.

Þá er einnig vísað til skjals þar sem innanríkisráðherra óskað eftir því þann 30. desember 2013 að ISAVIA myndi hefja undirbúning að lokum umræddrar flugbrautar „í samræmi við fyrri samninga ríkis og borgar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert