Uppfyllir ekki væntingar fólks

Heilbrigðiskerfið uppfyllir ekki væntingar fólks og krónískir sjúklingar með erfiða og flókna sjúkdóma fá ekki þá þjónustu sem þeir ættu að fá. Neikvætt viðhorf gegn kerfinu er alvarlegt mál þar sem margt gott á sér stað í kerfinu sem kemst síður upp á yfirborðið.

Þetta er meðal þess sem kom fram á borgarafundi RÚV um heilbrigðismál sem fór fram í Háskólabíó í kvöld. I fyrri pallborðsumræðum tóku þátt þau  Birgir Jakobsson landlæknir, Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, Arna Guðmundsdóttir formaður Læknafélags Reykjavíkur og Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Menntað starfsfólk kemur ekki inn í kerfið

Sérfræðingarnir voru margir sammála um það að helsta vandamál heilbrigðiskerfisins væri nýliðunin. Menntað heilbrigðisstarfólk kemur ekki inn í kerfið, er annað hvort í öðrum störfum eða býr erlendis og vill ekki koma heim. Arna sagði að Íslendingar þyrftu að átta sig á þeirri alheimssamkeppni sem er í gangi og að við ættum fullt af flottum ungum læknum, bæði í námi og við störf og það þurfi að fá þá til að vilja vinna á Íslandi. „Það er stóra vandamálið, og þess vegna verðum við að bæta aðbúnað, vinnuaðstöðu, kjörin og tækjabúnað. Til að fá fólk heim.“

Heilsugæslan kom einnig í tal og sagði landlæknir að hún hafi verið vanrækt í áratugi. Sagði hann að sparnaður í kerfinu hafi aðallega komið niður á þeirri þjónustu og síður á þjónustu sérfræðinga. Arna benti þó á að það ætti ekki að efla heilsugæsluna með því að láta aðrar greinar, eins og sérfræðilækningar sitja á hakanum. Sagði hún að sérfræðilæknar tæki á móti þriðjungi koma á hverju ári.

„Við viljum efla heilsugæsluna en ekki á kostnað annarra,“ sagði Arna. „Við getum ekki tekið úr einum vasa og sett í annan.“

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Skilvirkari heilsugæsla

Boðaðar hafa verið breytingar á heilsugæslukerfinu og var Oddur Steinarsson, lækningaforstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins spurður út í það. Sagði hann þær muni skila skilvirkara kerfi og betri þjónustu á viðunandi verði en um er að ræða nýtt kerfi sem þróað er í Svíþjóð. Hann sagðist vongóður um að nýja kerfið muni laða heilbrigðistarfsfólk að heilsugæslunni.

Oddur var spurður hvort það væri erfitt að fá fólk til þess að sérhæfa sig í heimilislækningum og svaraði hann því játandi. Þar á baki eru fjölþættar orsakir, m.a. starfsumhverfið að einhverju leyti. Sagði hann mikilvægt að þessi grunnþjónusta gleymist ekki og líkti henni við brunavarnir. „Það er „Við erum alltaf að slökkva elda en þurfum að huga meira að brunavörnum.“

Þarf að tryggja eftirsóttarvert starfsumhverfi

Rætt var við Sigríði Gunnarsdóttur, hjúkrunarforstjóra hjá Landspítalanum. Var hún spurð út í skort á hjúkrunarfræðingum og aukna þörf á þjónustu. Benti hún á að aðeins hluti af útskrifuðum hjúkrunarfræðingum skili sér inn á stofnanir og að þurfi að styrkja Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri svo að fleiri útskrifist.

„Það þarf að tryggja það að við náum að skapa starfsumhverfi sem er nægilega eftirsóttarvert svo að fólk endist í starfi,“ sagði Sigríður. Aðspurð hvort að það myndi vera lausn að fá inn erlenda hjúkrunarfræðinga benti hún á að í grunnin væri hjúkrun samskiptastarf sem krefst góðs valds á íslenskri tungu. Sagði hún þetta flókið mál sem yrði aldrei leyst að fullu með erlendu vinnuafli.

Var rætt um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og sagði Hildigunnur að henni megi ekki gleyma. Þá þarf að skilgreina þjónustuna, enda er ekki hægt að hafa sama þjónustustig um allt land.

Það sem skiptir þó máli að mati Hildigunnar er jafn aðgangur fólks að kerfinu, sama hvaðan það býr. Þá  þurfi líka að huga betur að  sjúkraflutningakerfinu sem tryggir það að fólk hafi greiðan og jafnan aðgang að þjónustunni. Benti hún á að sjúkraflutningakerfið væri fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á bráðaþjónustu að halda og er því gífurlega mikilvægur.

Birgir og Hildigunnur
Birgir og Hildigunnur mbl.is/Styrmir Kári

Getur ekki komið degi of snemma

Sérfræðingarnir voru sammála um þörfina á nýjum Landspítala er getur hann „ekki komið degi of snemma“ að mati forstjóra Landspítalans. Voru sérfræðingarnir sammála um það að best sé að byggja spítalann við Hringbraut.

Að mati Birgis er það algjör fásinna að þjóð eins fámenn og Íslendingar þurfi tvö háskólasjúkrahús en það er þó alveg nauðsynlegt að byggja eitt sterkt. Þá er nálægðin við háskólann mikilvæg og ákveðin vítamínsprauta sem getur orðið fyrir kerfið og skapað bjartsýni.

Birgir sagðist jafnframt ekki skilja hugmyndir þess efnis að byggja nýjan spítala við Vífilsstaði sem hann sagði vera „nánast sveit“. Fyrst og fremst sagði hann alvarlegt að stjórnvöld sendi út mismunandi skilaboð í svo alvarlegu máli og að stjórnvöld væru að haga sér af algjöru ábyrgðarleysi.

Páll og Arna
Páll og Arna mbl.is/Styrmir Kári

Hildigunnur tók í sama streng og sagði að staðsetningin við Hringbraut sé það besta í stöðunni. „Við þurfum eitt öflugt háskólasjúkrahús og annað eins og sjúkrahúsið er í dag. Það þarf líka að byggja það upp til þess að halda hæfu starfi innan allra stétta,“ sagði Hildigunnur. „Það má ekki gleyma því jafnhliða byggingu nýs sjúkrahúss.“

Páll sagði að nýtt sjúkrahús gæti ekki „komið degi of snemma“ og að það myndi tefja ferlið mjög mikið að breyta um staðsetningu og að það yrði ekki eins ódýrt og haldið er fram.

Aðspurður hvort að stjórnendur Landspítalans hafi reynt að þagga niður umræðu þeirra starfsmanna spítalans sem telja Hringbraut ekki besta kostinn fyrir nýjan spítala sagði  Páll það rangt. „Landspítalinn er mjög dreifsstýrð stofnun með mjög fáa stjórnendur. Hver má segja það sem þeim finnst.“

Arna var næst til að taka til máls og benti Birgi vinalega á að miðja borgarinnar í dag væri Mjóddin í Breiðholti sem vakti mikla lukku fundargesta. „En að öllu gríni slepptu þá þurfum við nýjan spítala, strax í gær,“ sagði Arna. Sagði hún þó að hugmynd um einhverskonar einkarekin spítala eða heilsugæslu, jafnvel í Garðabæ, hljóma mjög vel en að þurfi að taka ákvörðun strax um nýjan spítala við Hringbraut.

Framkvæmdir hafa verið í gangi við Landspítalann við Hringbraut að …
Framkvæmdir hafa verið í gangi við Landspítalann við Hringbraut að undanförnu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert