Býður sig fram til formanns

Guðmundur Ari segir ótrúlegt að Samfylkingin sé ekki stærsti flokkurinn …
Guðmundur Ari segir ótrúlegt að Samfylkingin sé ekki stærsti flokkurinn á Íslandi. Mynd/Aðsend

Guðmundur Ari, 27 ára bæjarfulltrúi af Seltjarnarnesi, hefur boðið sig fram til formanns Samfylkingarinnar.

Í fréttatilkynningu segir að hann vilji skerpa á fókus flokksins þar sem áherslan verður á að tala fyrir jafnaðarstefnunni í stað þess að setja allt púður í að gagnrýna aðra flokka. Guðmundur Ari telur að stærsti vandi Samfylkingarinnar snúi ekki að stefnu flokksins eða hvaða málefni eigi að ráðast í til að bæta hag almennings. Vandamál Samfylkingarinnar snúist um skort á tengingu forystunnar við hinn almenna flokksmann og þar af leiðandi kjósendur í landinu.

,,Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, sé ekki stærsti flokkurinn hér á landi þar sem mikill meirihluti landsmanna eru jafnaðarmenn og vilja búa í samfélagi þar sem allir hafa jafna möguleika til að ná árangri óháð efnahag og félagslegri stöðu” segir Guðmundur Ari í tilkynningunni.

„Það eru allir flottir“

Samkvæmt honum þarf formaður Samfylkingarinnar ekki aðeins að vera talsmaður stefnu flokksins heldur einnig að vinna eftir henni.

„Formaðurinn þarf að muna að það eru allir flottir og að sterku samfélagi er ekki stýrt af fámennum valdaklíkum heldur með öflugri grasrót og aðkomu sem flestra að ákvarðanatöku. Samfylkingin þarf ekki formann sem telur sig vita allt best og að hann sé með allar lausnir á vandamálum samfélagsins sjálfur. Hlutverk formanns er að virkja sem flesta félagsmenn til þátttöku og finna svo bestu leiðirnar til að koma málefnum þeirra í framkvæmd hvort sem það er inni á Alþingi eða í sveitarstjórnarmálum,“ segir Guðmundur.

„Það vill oft gleymast að Samfylkingin er stærri en þingflokkur Samfylkingarinnar og að í sveitarstjórnum landsins berjast fulltrúar flokksins á hverjum degi fyrir baráttumálum jafnaðarmanna,” segir hann og bætir við að hann vilji sem formaður vinna í góðu samstarfi við sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar á landsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert