„Forsætisráðherra tók því þátt í því að rýra eignir eiginkonu sinnar“

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra, á félagið …
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson forsætisráðherra, á félagið Wintris sem skráð er á Bresku jómfrúreyjum. mbl.is/Steinþór Guðbjartsson

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna fer yfir umræðu um fjármál eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í yfirlýsingu. Niðurstaðan stjórnarinnar er m.a. sú að ráðherrann hafi tekið þátt í því að rýra eignir eiginkonu sinnar mikið.

Yfirlýsingin hefst á því að stjórnin lýsir undrun á því í hvaða farþeg umræðan um störf ráðherrans, sem einnig er formaður Framsóknarflokksins, er komin. Er það mat stjórnarinnar að forsætisráðherra hafi sýnt það og sannað í starfi sínu að hann sé forsætisráðherra allrar þjóðarinnar. Telur stjórnin til nokkur atriði sem hún telur standa upp úr: Skuldarleiðréttinguna, aukinn hagvöxt og kaupmátt, „ótrúleg niðurstaða“ í afnámi hafta sem og minnkandi atvinnuleysi.

Svo segir í yfirlýsingunni:

„Umræðan og þær árásir sem að eiginkona forsætisráðherra hefur þurft að sæta sýnir þá lágkúru sem að kraumar undir í íslenskri pólitík og pólitískri umræðu.

Þess má geta að félag einginkonu forsætisráðherra, Wintris Inc. hefur ávallt borgað skatta á Íslandi og hefur KPMG staðfest það að fullur skattur hefur ávallt verið greiddur og að skattgreiðslum hafi aldrei verið frestað þó svo að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi samkvæmt lögum.

Félagið hefur heldur aldrei farið leynt með sínar eignir.

Eiginkona forsætisráðherra treysti á ráðgjöf fjármálamanna á árunum fyrir hrun og tapaði félagið miklum peningum á falli bankanna eins og margir aðrir gerðu. Hún eins og allir aðrir sem áttu inni fjármagn hjá gjaldþrota fyrirtæki gátu eignast kröfu í þrotabúi þess fyrirtækis, hún var því kröfuhafi en ekki „hrægammur“, því annars þyrfti hún að hafa keypt kröfu í þrotabúi föllnu bankanna sem að hún gerði aldrei.

Einnig hefur það verið í umræðunni um að forsætisráðherra hafi brotið gegn siðareglum Alþingis með því að upplýsa þing og þjóð ekki um hagsmuni sína í fyrirtækjum og félögum. En staðreyndin er sú að umleið og forsætisráðherra byrjaði sinn stjórnmálaferil hefur ekki verið fjárfest í íslenskum fyrirtækjum til þess að forðast hagsmunaárekstra. Lengi hefur verið vitað að eiginkona hans er vel efnuð, en engum þingmanni er gert skylt að sýna fram á eignir og hagsmuni maka síns.

Niðurstaða í afnámi hafta styður þetta. Það hefur enginn stjórnmálamaður barist jafn hart gegn kröfuhöfum og Sigmundur Davíð, forsætisráðherra.

Niðurstaðan er ótrúleg og um það eru allir sammála. Þess má geta að Lee Bucheit kom fram í fjölmiðlum nýverið og líkti niðurstöðunni við það að bandaríkjaforseta væru afhentar 6 til 7 milljarðar dollara og því væri þetta algjörlega einstakt tilfelli. Forsætisráðherra tók því þátt í því að rýra eignir eiginkonu sinnar mikið.

Miðað við staðreyndir er umræðan um vantraust á forsætisráðherra algjörlega á villigötum og lýsir því stjórn SUF yfir fullu trausti við forsætisráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert