Kannabissala og framleiðsla í fjölbýlishúsi

Fíkniefni komu við sögu í flestum málum sem komu á …
Fíkniefni komu við sögu í flestum málum sem komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglunni barst um tíu leytið í gærkvöldi ábending um fíkniefnalykt í stigagangi í fjölbýlishúsi í Grafarvogi. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að þar var rekin fíkniefnaframleiðsla og sala.

Tveir íbúar hússins framleiddu fíkniefni í einni íbúðinni og seldu einnig. Lögreglan lagði hald á plöntur, fíkniefni og búnaður en málið var afgreitt á vettvangi þannig að það er enginn í haldi vegna þess.

Um níu í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið á Laugavegi við Nóatún. Ökumaðurinn var próflaus og undir áhrifum fíkniefna . Hann var einnig með fíkniefni á sér en bifreiðin var ótryggð og skráningarnúmer hennar voru því klippt af á vettvangi.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um  fíkniefnalykt á stigagangi í fjölbýlishúsi í  Hafnarfirði. Lögreglan kom á staðinn og hafði afskipti af íbúa vegna vörslu fíkniefna en málið var afgreitt á vettvangi. 

Rúmlega níu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg en bifreiðinni var ekið á 108 km hraða þar sem heimilt er að aka á 80. Ökumaðurinn reyndist bæði próflaus, hafði verið sviptur ökuréttindum, og undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert